Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands og Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, hafa gagnrýnt þá ákvörðun Air Iceland Connect að hætta beinu flugi milli Keflavíkur og Akureyrar án samráðs. Þetta kemur fram á Vísi.is.
Arnheiður segir að ákvörðunin muni hafa mikil áhrif á vetrarferðaþjónustuna á svæðinu. Fyrr í febrúar tilkynnti Air Iceland Connect að stefnt væri að því að hætta fluginu í maí.
Arnheiður segir í samtali við Vísi að ákvörðunin hafi komið á óvart og að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila á Norðurlandi. Hún segir betri flugtenging Akureyrar út í heim vera lykilatriði í því að byggja upp vetrarferðaþjónustu og því sé ákvörðunin mikil vonbrigði.
„Eitt ár er auðvitað allt of stuttur tími til þess að byggja upp svona flugleið þannig að það er mjög vont að ákvörðunin sé tekin í rauninni án samráðs við ferðaþjónustuna og menn hér hafa kallað eftir meira samtali við flugfélagið varðandi þetta,“ segir Arnheiður.
Eiríkur Björn tekur undir orð Arnheiðar og segir að miklar væntingar hafi verið til þessarar flugleiðar. Rétt um ár er síðan flugfélagið hóf beint flug milli Akureyrar og Keflavíkur en rökin fyrir að hætta fluginu var að sætanýting erlendra ferðamanna hafi ekki verið mikil. Eiríkur gagnrýnir markaðssetningu á fluginu.
UMMÆLI