Tveir karlmenn um þrítugt hafa verið ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og frelsissviptingu á Akureyri í apríl árið 2016. Annar maðurinn er sakaður um að hafa veist að fórnarlambinu og beitt ofbeldi, meðal annars með því að draga hann úr heitum potti og draga hann á sólpall þar sem hann var snúinn niður í glerbrot og ítrekað laminn í andlitið.
Báðir eru þeir sakaðir um að hafa svipt fórnarlambið frelsi sínu með því að hafa sett hann rænulausan upp í bifreið. Árásin átti sér stað í Giljahverfi en manninum var ekið upp að Fálkafelli fyrir ofan Akureyri og skilinn þar eftir meðvitundarlaus og slasaður.
Um rúmlega 11 um morguninn fann vegfarandi manninn sem hafði þá hlotið áverka víða og var meðal annars með brotinn úlnlið og yfirborðsáverka og bólgur á öllum útlimum og andliti.
Þar sem árásin telst sérstaklega hættuleg geta mennirnir fengið allt að 16 ára fangelsisdóm. Fyrirtaka málsins fer frm í Héraðsdómi Norðurlands í dag.
Af hálfu fórnarlambsins er farið fram á tvær milljónir í einkaréttarkröfu vegna árásarinnar. Maðurinn sem varð fyrir árásinni og frelsissviptingunni hefur áður orðið fyrir árás á Akureyri, en í fyrra varð hann fyrir hnífstunguárás í Kjarnaskógi þar sem slagæð rofnaði.
UMMÆLI