NTC

Strikið og Bryggjan á Akureyri taka þátt í tilraunaverkefninu “Fræðsla í ferðaþjónustu”

Veitingastaðirnir Strikið og Bryggjan á Akureyri munu taka þátt í tilraunaverkefninu “Fræðsla í ferðaþjónustu” og hafa gert samstarfssamning við Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar þess efnis. Hæfnisetur ferðaþjónustunndar var sett á stofn í byrjun síðasta árs og hefur það að markmiði að auka hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu.

Skrifað var undir samning 22. febrúar síðastliðin og tók hann strax gildi og er til sextán mánaða, til júní 2019. Samningurinn er víðtækur en rauði þráðurinn í honum er fræðsla fyrir starfsmenn Striksins/Bryggjunnar. Myndaður verður stýrihópur innan fyrirtækisins sem mun vinna að verkefninu með Helga Þorbirni Svavarssyni og Ingunni Helgu Bjarnadóttur, verkefnastjórum SÍMEY og Hildi Bettý Kristjánsdóttur, starfsmanni Hæfniseturs ferðaþjónustunnar.

Á veitingastöðunum Strikinu og Bryggjunni eru fastir starfsmenn fyrirtækisins á þriðja tuginn en sú tala meira en tvöfaldast á mesta álagstímanum yfir sumarið, þegar ferðamannastraumurinn er í hámarki.

Af hálfu Striksins/Bryggjunnar skrifuðu undir samninginn Steinunn Heba Finnsdóttir og Róbert Aðalsteinsson, Valgeir B. Magnússon fyrir hönd SÍMEY og Hildur Bettý Kristjánsdóttir fyrir hönd Hæfniseturs ferðaþjónustunnar.

Að lokinni undirritun samstarfssamningsins. Frá vinstri: Róbert Aðalsteinsson og Steinunn Heba Finnsdóttir frá Strikinu/Bryggjunni, Hildur Bettý Kristjánsdóttir, starfsmaður Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Helgi Þ. Svavarsson, verkefnastjóri SÍMEY, og Valgeir B. Magnússon, framkvæmdastjóri SÍMEY.

Sambíó

UMMÆLI