Framsókn

Þriðjudagsfyrirlestur: Hvað var maðurinn að hugsa?!

Elísabet Gunnarsdóttir.

Þriðjudaginn 27. febrúar kl. 17-17.40 heldur Elísabet Gunnarsdóttir, safnstjóri Listasafns ASÍ, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Hvað var maðurinn að hugsa?! Þar mun hún fjalla um Listasafn ASÍ og hvaða aðferðum þar er beitt til að miðla listinni til almennings um allt land. Skoðaðar verða hugmyndir hugsjónamannsins Ragnars Jónssonar í Smára sem færði ASÍ listaverkasafn sitt að gjöf 1961 og lagði þar með grunninn að safninu. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði Listasafn alþýðunnar sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu.

Elísabet Gunnarsdóttir lagði stund á nám í arkitektúr í Skotlandi og Frakklandi. Hún rak teiknistofuna kol&salt til margra ára og var jafnframt virkur þátttakandi í rekstri Gallerís Slunkaríkis á Ísafirði. Hún stýrði listastofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í Noregi og vann síðar að því að setja á fót og þróa nýja listastofnun á Fogo Island á austurströnd Kanada fyrir Shorefast Foundation. Undanfarin ár hefur Elísabet unnið að ýmsum menningarverkefnum með aðsetur á Ísafirði og setti m.a. á laggirnar alþjóðlegar gestavinnustofur, ArtsIceland, í samstarfi við Gallerí Úthverfu/Outvert Art Space á Ísafirði ásamt Gunnari Jónssyni, myndlistarmanni. Elísabet hefur verið safnstjóri Listasafns ASÍ frá nóvember 2016. 

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri.

Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Finnur Friðriksson, dósent í íslensku, Herdís Björk Þórðardóttir, hönnuður og Jeannette Castioni, myndlistarkona, og Ólafur Guðmundsson, leikari.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó