Ekki orð um Glerárgötu

Einar Brynjólfsson skrifar:

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að í vor fara fram kosningar til sveitarstjórna. Reyndar er lítill skriður kominn á kosningabaráttuna, enda eru flokkarnir víðast hvar enn í óðaönn að ganga frá framboðslistum. Þó má segja að baráttan um borgina sé hafin, þ.e. Reykjavíkurborg, og virðist sem samgöngumál [lesist: borgarlína] ætli að verða helzta bitbeinið í þeirri baráttu.

Víkur nú sögunni til Akureyrar. Fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 2014 varð Glerárgatan að áberandi ásteytingarsteini hér í bæ, nánar tiltekið hvort þrengja ætti hluta hennar eða ekki. Ég ætla ekki að gera lítið úr samgöngumálum en ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta getur gerst, þ.e. að svona tittlingaskítur verði að þvílíku hitamáli í kosningabaráttu.

Það er nefnilega af nógu að taka. Það mætti til dæmis fjalla um fólk, ungt jafnt sem gamalt. Í því samhengi má nefna að pláss fyrir dagvistun yngstu kynslóðarinnar eru svo fá að Akureyrarbær hefur neyðst til að „útvista“ nokkrum börnum á leikskóla í öðrum sveitarfélögum, stór hluti unga fólksins okkar kann ekki að lesa og biðlistar á Öldrunarheimili Akureyrarbæjar eru alltof langir. Hér í bæ er húsnæðisverð alltof hátt, auk þess sem nefna má að framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins, t.d. við Listasafnið, sundlaugina og við lóð Naustaskóla, fara fram úr áætluðum kostnaði um tugi og jafnvel hundruð milljóna.

Samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarbæ eru engin áform uppi um tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar, sem gæti þó bætt lífsgæði verulega, ef vel tekst til. Svona mætti lengi telja.

Vonandi verður ekkert minnst á Glerárgötu fram að kosningum!

Höfundur er fyrrverandi þingmaður Pírata.

Pistillinn birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 22. febrúar. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó