Innanlandsflug milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrarflugvallar hófst fyrir rétt rúmlega ári síðan og vakti mikla lukku fyrir Norðlendinga sem höfðu þá loksins þægilegri kost til að ferðast til Keflavíkurflugvallar. Með þessu fyrirkomulagi hafa Norðlendingar, og aðrir, getað flogið beint frá Akureyrarflugvelli til Keflavíkur og haldið þaðan beint út í heim. Flugið, hefur að sögn Air Iceland Connect, ekki gengið nægilega vel og aðsókn ekki verið eins mikil og gert var ráð fyrir.
,,Það eru vonbrigði að þessi leið skuli falla niður. Við höfum lagt töluvert af mörkum til að gera þetta mögulegt. Við breyttum reglum flugþróunarsjóðs til að þær næðu til þessa flugs og sjóðurinn hefur því styrkt það um níu til tíu milljónir króna,” segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, í viðtali við turisti.is um ákvörðun Air Iceland Connect að leggja niður innanlandsflug milli Akureyrarflugvallar og Keflavíkurflugvallar í vor.
Ráðherrann bendir einnig á að 80 milljónum hafi verið varið í markaðssetningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum og telur það því ekki fullreynt að halda þjónustunni úti. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdarstjóri Markaðsstofu Norðurlands, telur að næg eftirspurn sé eftir innanlandsflugi þarna á milli og það sé í skoðun núna að finna flugfélög sem gætu tekið yfir þessari þjónustu af Air Iceland Connect.
UMMÆLI