Viktor Samúelsson og Hulda B. Waage úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar urðu stigahæst á Íslandsmeistaramótinu í kraftlyftingum sem fór fram á Akureyri um síðustu helgi í umsjón Kraftlyftingafélags Akureyrar. Þau urðu einnig stigahæst þegar keppt var í bekkpressu.
Í karlaflokki var Viktor Samúelsson, KFA, stigahæstur með 581,9 stig. Viktor lyfti 387,5-302,5-320 eða samtals 1.010 kg sem er nýtt Íslandsmet í -120 kg flokki. Hnébeygjan og réttstöðulyftan eru líka persónulegar bætingar og bætingar á Íslandsmetum.
Í kvennaflokki var Hulda B. Waage, KFA, stigahæst með 473,9 stig. Hulda lyfti 215-130-177,5 og jafnaði Íslandsmetið samanlagt í -84 kg flokki með 522,5 kg. Hnébeygjan er nýtt Íslandsmet í flokknum.
Íslandsmeistaramótið í bekkpressu var haldið samhliða og þar urðu Viktor og Hulda einnig stigahæst.
Í karlaflokki var Viktor Samúelsson, KFA, stigahæstur, en hann lyfti 295 kg í -120 kg flokki. Annar var Alex Cambray Orrason, einnig úr KFA, en hann setti nýtt Íslandsmet í -105 kg flokki með 251,5 kg.
Í kvennaflokki var Hulda B. Waage stigahæst, en hún lyfti 133 kg í -84 kg flokki sem er nýtt Íslandsmet. Íris Hrönn Garðarsdóttir, KFA, lyfti 90 kg í -84 kg flokki og varð í öðru sæti.
UMMÆLI