Guðmar Gísli Þrastarson skrifar:
Það er heldur betur blaut tuska sem Hríseyingar fá í andlitið nú þegar Vegagerðin hefur tilkynnt að frá og með 1. maí næstkomandi, þegar ný gjaldskrá tekur gildi, að gjald fyrir upphringiferð fari úr 1700 kr í 3700 kr. Upphringiferðir eru ferðir sem pantaðar eru fyrirfram og eru það ferðir kl. 23:00 frá september til maí, 09:00 ferðin á sunnudagsmorgnum á sama tímabili og á laugardögum kl. 07:00, en greiða þarf fyrir þá ferð allt árið um kring.
Þessi hækkun, og ekki síst þessi skerðing, kemur beint úr höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Garðabæ, án nokkurs samráðs við íbúa. Hér er verið að hækka verðið um 117,6% miðað við almennt fargjald, og þessi hækkun kemur niður á íbúum, gestum, og ekki síst á Vegagerðinni og Almenningssamgöngum, sem sýna enn eina ferðina hversu mikið samskiptarof hefur ríkt í samskiptum þessarar stofnunar við Hríseyinga. Svo virðist sem þessi stofnun geti eftir sinni hentisemi hækkað gjöld og skert möguleika á búsetu á eynni og á iðkun ýmissa tómstunda, án þess að spyrja kóng né prest. Þetta sýnir hversu mikill óheiðarleiki Hríseyingum er sýndur. Þess vegna skiptir rödd Hríseyinga máli þegar kemur að svona fyrirætlunum, sem
því miður eru ekki einsdæmi.
Í júní 2023 skrifaði ég pistil um áhugaleysi Vegagerðarinnar, en fyrir stuttu lauk loksins máli Andeyjar EHF við Vegagerðina um útboð ferjunnar. Þar samþykkti Vegagerðin tilboð Eysteins Þóris Yngvasonar, sem bauð fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags og bauð 296,6 milljónir, sem var lægsta tilboðið í útboðinu. Vegagerðin samþykkti þetta tilboð og gerði kostnaðaráætlun fyrir 347,8 milljónir í verktakakostnaði, en tilboð Eysteins var rúmum 50 milljónum minna en áætlunin. Tæpu ári síðar var ákvörðun Vegagerðarinnar felld úr gildi af Kærunefnd útboðsmála. Eftir að samningur um rekstur ferjunnar við Andey EHF var framlengdur til loka árs 2023, tók Vegagerðin við rekstrinum og var það að lokum félagið Almenningssamgöngur EHF, sem er alfarið í eigu Vegagerðarinnar, sem í dag sér um rekstur ferjunnar. Það má bæta við að á meðan útboðsferlinu stóð í lok árs 2022, ríkti mikil óvissa um mögulega skerðingu og fækkun ferða, sem sem betur fer varð ekki að veruleika.
Ástæður fyrir þessari fyrirhuguðu hækkun veit ég ekki frekar en aðrir, sem hrista hausinn yfir þessum fyrirætlunum, hvort sem það tengist rekstri ferjunnar á einn eða annan hátt, eða öðru sem snertir Hríseyinga ekki að neinu leyti. Hvað sem það er sem veldur því að þessi hækkun eigi sér stað, þá breytir það ekki því að svona ákvarðanir, sem teknar eru án samráðs, og fyrri reynsla Hríseyinga við þessa stofnun, sýnir hvers konar vinnubrögð eiga sér stað innan þessarar tilteknu ríkisstofnunar.
Það er ekkert við ákvörðun sem ríkisstofnun tekur án samráðs, sem hefur áhrif á búsetu þegar litið er fram í tímann, iðkun á félags- og íþróttastarfi, atvinnu fólks í landi og sömuleiðis í Hrísey, sem getur flokkast undir góð og vönduð vinnubrögð. Ef Vegagerðin hefði borið þetta undir íbúa og stjórn Hverfisráðs, þá væri ég líklegast ekki að skrifa þennan pistil. Það er hins vegar engum blöðum um það að fletta að þjónusta við íbúa tengdum rekstri ferjunnar hefur verið góð, en eftir allt sem á undan er gengið síðustu þrjú ár, verðum við Hríseyingar að láta í okkur heyra. Það er algjörlega ótækt að láta svona skerðingu verða að veruleika með hækkun á gjaldskrá ferjunnar.
Mig langar að þakka Ingólfi Sigfússyni, formanni Hverfisráðs, fyrir pistilinn sem hann setti á Facebook síðu sína og birtist hér á Kaffinu um hina fyrirhuguðu hækkun. Sumt sem hér er vitnað í kemur úr pistli Ingólfs og þá ber helst að nefna fyrirkomulagið á upphringiferðum ferjunnar.
Ég er alveg og hef alltaf verið óhræddur að láta skoðun mína í ljós, enda þegar ég las um þessa fyrirhuguðu hækkun þá blöskraði mér. Ástæða þess að ég skrifa þennan pistil er ekki einungis vegna minnar skoðunar á málinu, heldur einnig væntumþykju mína á minni heimabyggð og að ég vilji síst láta Hríseyinga þurfa verða fyrir víðtækri skerðingu á því sem ég vitnaði í hér fyrr í pistlinum.
Hríseyingar þurfa nú að láta í sér heyra. Það höfum við gert áður og það munum við gera!