KA fær markvörð úr sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta

KA fær markvörð úr sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta

Knattspyrnudeild KA hefur fengið markvörðinn Jonathan Rasheed til liðs við félagið. Jonathan kemur til KA úr sænsku úrvalsdeildinni þar sem hann spilaði með IFK Värnamo síðasta sumar. Jonathan er 33 ára gamall og kemur frá Noregi, þó svo að hann sé fæddur í Svíþjóð. Þetta kemur fram á vef KA.

„Við erum afar spennt fyrir komu Jonathans hingað norður en hann mætti á svæðið í dag og er því strax klár að koma sér inn í hópinn. Það var ljóst eftir síðasta tímabil að það yrðu breytingar á markmannsteymi Bikarmeistaraliðs KA en Kristijan Jajalo yfirgaf herbúðir KA eftir síðasta sumar,“ segir í tilkynningu KA.

Jonathan er fæddur í Gautaborg en er með norskan ríkisborgararétt. Faðir hans er nígerískur og móðir hans er norsk. Á síðasta tímabili lék hann 14 leiki fyrir Värnamo í sænsku úrvalsdeildinni er liðið tryggði sér áframhaldandi veru í efstudeild en árið þar á undan lék hann 22 leiki er Värnamo endaði í 5. sæti deildarinnar.

Alls hefur hann leikið 47 leiki í efstu deild í Svíþjóð og 40 leiki í næstefstu deild. Auk þess á hann 29 leiki í norsku B-deildinni. Jonathan skrifaði undir tveggja ára samning við KA og er því samninsbundinn liðinu út sumarið 2026.

Sambíó
Sambíó