Ég vil frekar bara ekki hugsa og skjóta

Ég vil frekar bara ekki hugsa og skjóta

Rafíþróttir hafa verið að ryðja sér til rúms síðastliðin ár og eru ýmsar rafíþróttadeildir á íslandi tileinkaðar tölvuleikjum. Counter Strike er sérstaklega vinsæll hérlendis, og erlendis, og eru mörg stórmót út í heim þar sem rafíþróttamenn etja kappi með margar milljónir í verðlaun fyrir sigurvegarana.

Fyrir tæpri viku voru íþróttakarl og íþróttakona Þórs tilkynnt við hátíðlega athöfn eins og Kaffið greindi áður frá. Mörgum ef til vill til undrunar var Alfreð Leó Svansson valinn íþróttakarl ársins hjá Þór en hann spilar tölvuleikinn Counter Strike innan rafíþróttadeildar Þórs. Að minnsta kosti kom það Alfreð sjálfum á óvart en hann hafði ekki mikla trú á því að hampa titlinum.

„Ég ætlaði ekkert að mæta fyrr en yfirmaðurinn minn skipaði mér í frí, hann er yfirmaður minn á ÚA og líka eitthvað tengdur körfuboltanum hjá Þór.

Alli segist vera Þórsari og að þetta sanni það enn frekar en hann er þó búinn að vera Þórsari í rúm tuttugu ár. Hann byrjaði að spila fótbolta með Þór en að eigin sögn var hann skítlélegur og sneri sér því að tölvuleikjaspilun. Þegar hann fermdist fékk hann fartölvu í gjöf en hann hafði verið að spila á Xbox fyrir það. Síðar fékk hann tölvuturn og þá segir hann að allt hafi breyst, þá var ekki hægt að snúa til baka.

Alli hefur síðan verið að spila með mörgum liðum í gegnum tíðina en upp á síðkastið með Þór. Á vefsíðu Þór segir Alli er einn af lykilleikmönnum Þórs í Ljósleiðaradeildinni, hann hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína á þessu tímabili og landaði hann meðal annars Íslandsmeistaratitlinum með Þór.“

Aðspurður hvað framtíðin beri í skauti svarar Alfreð því að hann viti ekki alveg hvort hann hafi tíma til þess að spila með Þór, því leikirnir eru oft á vinnutíma en það kemur í ljós segir hann. Það má votta fyrir ákveðinni svartsýni þegar hann talar um ferilinn en hann segir hann fara líða undir lok.

„Ég er orðinn 31, þetta er bara búið. Þetta er bara hobbí núna, þetta er árið sem ég spilaði CS hvað minnst,“ segir Alfreð og bætir við Ég datt bara í ruglið var að spila 19 klukkutíma alla daga til þess að vera góður, núna spila ég kannski tvo klukkutíma á viku……Ég þoli ekki að eldast, ég vil bara vera ungur aftur og drullugóður, núna er ég allt í lagi en ég bara nenni ekki að standa í þessu, læra smóka og eitthvað. Ég vil frekar bara ekki hugsa og skjóta.“

Leikmenn sem honum líst hins vegar á, sem hann telur vera framtíðina í íþróttinni, eru meðal annars leikmennirnir Brimir sem Kaffið ræddi við nýlega, Elvar sem spilar með Alla í Þór og Ási.

Það verður spennandi að sjá hvort Alli rífi í músina eitthvað í framtíðinni en það er óvíst hvort það verði, að minnsta kosti sem atvinnumaður.

Kaffið þakkar Alla fyrir opinskátt og gott spjall, einnig óskum við honum til hamingju með titilinn sem íþróttakarl Þórs ársins 2024.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó