Gæludýr.is

„Frábært að geta valið nám í mínum heimabæ“

„Frábært að geta valið nám í mínum heimabæ“

Fyrsta HA-viðtal ársins á Kaffið.is er við hana Hörpu Jóhannsdóttur, knattspyrnukonu og nema í tölvunarfræði við HA/HR.

Í hvaða námi ert þú? Ég er í BS í tölvunarfræði í HA/HR 

Af hverju valdir þú þetta nám? Ég útskrifaðist með BS í viðskiptafræði frá HA sumarið 2022. Þegar ég fór að hugsa hvað ég vildi gera í framhaldinu, þá var ekki margt sem heillaði mig varðandi meistaranám og ég var alls ekki viss um hvað “mig langaði að verða þegar ég yrði stór”. Ég spila fótbolta með ÞórKA og á þeim tímapunkti var ekki inn í myndinni að flytja suður og stunda nám þar. Ég skellti mér því á opna háskóladaginn í HA og rakst á Tölvunarfræðina. Þar fann ég út að þeir sem hafa lokið 60 eininga heildstæðu háskólanámi geta tekið tölvunarfræðina á 2 árum. Mér fannst það tilvalið, að samtvinna þessar tvær greinar, tölvunarfræði og viðskiptafræði. Þegar ég svo byrjaði í tölvunarfræðinni fannst mér hún svo spennandi að ég ákvað að taka fleiri einingar og stefni á að útskrifast í vor eftir 3ja ára nám. Ég sé ekki eftir því og held að þetta verði góður kokteill í framtíðinni. Ég fór smá blint í þetta nám, vissi lítið sem ekkert um hvað ég var að fara út í en þetta hefur verið góð og krefjandi áskorun. 

Hvers vegna valdir þú HA? Ég er héðan frá Akureyri og vegna fótboltans, sem hefur verið mitt helsta áhugamál, fannst mér frábært að geta valið nám í mínum heimabæ. Reynsla mín af skólanum var líka góð eftir viðskiptafræðina og því enginn vafi í mínum huga að velja HA aftur.  

Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri? Akureyri er frábært bæjarfélag fyrir háskólasamfélag að mínu mati. Hér er allt til alls, öll helsta þjónusta og stuttar vegalengdir í allt. Háskólalífið í HA er mjög gott og sterkt, nemendafélögin eru dugleg að fá nemendur til að gera eitthvað saman. Ég er í DATA og það eru margar áhugaverðar og skemmtilegar vísindaferðir í boði ásamt lærikvöldum og fleira. Það ætti því engum að leiðast í HA.  

Hvað ber framtíðin í skauti sér að loknu námi? Að loknu námi mun ég líklegast skella mér á vinnumarkaðinn og þreifa fyrir mér þar. Ég hef verið í námi nánast allt mitt líf, ætli ég segi þetta ekki gott í bili a.m.k. eða þangað til annað kemur í ljós.  

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? Draumurinn núna er að vera framenda- eða bakenda forritari hjá einhverju frábæru fyrirtæki.  

Hvaða ráð myndir þú gefa nýnemum sem eru að hefja nám við háskólann? Mitt ráð er að mæta í nýnema vikuna og allt sem henni fylgir, alveg sama hvort um fjarnám eða staðarnám er að ræða. Þar fær maður að kynnast öllu og vita allt sem maður þarf að vita, ásamt því að sjá fólkið sem er að hefja námið með manni. Það gerir háskóla upplifunina svo miklu skemmtilegri að kynnast fólkinu sem er manni samferða í náminu. Það getur verið gulls í gildi að hafa einhvern til að leita til, hvort sem það er tengt náminu eða einhverju öðru. Mæta með opinn huga, það mun enginn sjá eftir því! 

Hvað gerir háskólann sérstakan að þínu mati? Hvað samfélagið er náið hérna. Aðgengi að kennurum er gott og það getur myndast skemmtileg “bekkjastemming” ef maður leitast eftir því. Starfsfólkið er frábært og allir tilbúnir að hjálpa manni í einu og öllu.  

Hvar er besti staðurinn til þess að læra? N glerstofurnar á annarri hæð eru snilld! 

Hvernig er kaffið í HA? Það er frábært, mikið úrval í boði þannig maður getur alltaf valið sér bolla við rétt tilefni.  

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó