Bjartsýn fyrir hönd Akureyringa

Bjartsýn fyrir hönd Akureyringa

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, er bjartsýn fyrir hönd Akureyringa í áramótahugleiðingu sinni sen birtist á vef Akureyrarbæjar. Hún minnir um leið á að blikur eru á lofti í heimsmálunum. Hér að neðan má lesa hugleiðingu Ásthildar sem birtist á vef bæjarins á Gamlársdag.


Á dimmasta tíma ársins, um jól og áramót, lýsum við Íslendingar upp umhverfi okkar og viljum eiga góðar stundir með okkar nánustu. Þannig spornum við gegn myrkrinu og lýsum upp skammdegið í fullvissu um að bráðum birti til með betri tíð og blóm í haga.

Hér á Akureyri fjölgar jólaljósunum ár frá ári og að þessu sinni var gerð tilraun til að hafa lítið Jólatorg á Ráðhústorgi með sölubásum og ótal jólaljósum. Það tókst vel og verður stækkað og útfært betur á komandi árum. Ekki má heldur gleyma nýju kirkjutröppunum okkar, upplýstum og fallegum, en tröppurnar eru ásamt kirkjunni eitt af táknum Akureyrar, stórkostlegt mannvirki og að mínu mati hefur endurgerð þeirra heppnast afar vel.

Um áramót horfum við fram á við, hugleiðum hvernig næsta ár verði, og horfum yfir farinn veg. Margt hefur gerst og margs er að minnast nú þegar árið 2024 er að líða í aldanna skaut. Hvernig var því varið?

Þetta ár er frá oss farið,
fæst ei aftur liðin tíð.
Hvernig höfum vér því varið?
Vægi’ oss Drottins náðin blíð.
Ævin líður árum með,
ei vér getum fyrir séð
hvort vér önnur árslok sjáum.
Að oss því í tíma gáum.
         (Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi)

Íbúar Akureyrarbæjar mega vel við una. Árið 2024 var okkur gott. Í alþjóðlegu samhengi er Akureyri e.t.v. ekki stór en þó er hér að finna allt það sem prýtt gæti milljóna manna borgir erlendis. Mér finnst Akureyri frábær staður til að búa á og verð með hverju ári stoltari og glaðari með að búa hér, enda allt til alls. Umhverfið er einstakt og aðstæður til útiveru og tómstunda eins og best verður á kosið. Grunngerð samfélagsins er afar sterk og ég vona að hér líði fólki almennt vel. Hér er gott að sækja sér menntun, ala upp börn og njóta lífsins í leik og starfi. Sveitarfélagið leggur allt kapp á að búa íbúum sem bestar aðstæður.

Fólksfjölgun er hæg en stöðug, ný hverfi rísa og framkvæmdir ganga vel. Fjárhagur sveitarfélagsins er traustur, þrátt fyrir að ráðist hafi verið í kostnaðarsama uppbyggingu á ýmsum sviðum og ennþá meiri uppbygging sé á döfinni. Við höfum nefnilega metnað til að bæta og gera sífellt betur.

Senn rís nýr leikskóli í Hagahverfi, Móahverfið byggist hratt upp og sömuleiðis Holtahverfið. Á félagssvæðum KA og Þórs, stærstu íþróttafélaga bæjarins, er nú ráðist í miklar umbætur og uppbyggingu, og menningarlífið er í blóma, grasrótin gróskumikil og Listasafnið ásamt Menningarfélagi Akureyrar sinna hlutverkum sínum með sóma. Heilbrigðismálum er vel sinnt og á árinu var ný heilsugæslustöð opnuð í Sunnuhlíð, önnur er á teikniborðinu, og framundan er viðbygging við SAK sem lengi hefur verið beðið eftir.

Breytingar sem gerðar voru á gjaldskrám leikskóla á síðasta ári með gjaldfrjálsri dvöl frá kl. 8-14 hafa reynst vel. Eftirfylgni með farsæld allra barna samkvæmt lögum þar að lútandi hefur gefið góða raun. Símafrí í grunnskólum hefur sömuleiðis mælst vel fyrir og verður áfram við lýði. Önnur sveitarfélög hafa litið til okkar reynslu af þeim reglum sem settar voru í grunnskólum bæjarins.

Grímsey, Hrísey og Akureyri eru sem perlur á festi sem teygir sig frá heimskautsbaugnum suður í blómlega dali á fastalandinu. Á öllu þessu svæði hefur verið stöðug uppbygging í ferðaþjónustu og nú rísa ný hótel í höfuðborg hins bjarta norðurs á sama tíma og alþjóðlegt flugfélag hefur tengt okkur beint við Evrópu með reglubundnu flugi til London og Manchester lungann úr árinu. Til að styrkja þessa samgöngubót enn frekar var ný flugstöð vígð fyrir skemmstu á sjötugsafmæli Akureyrarflugvallar. Allt þetta er til marks um trú á bjarta framtíð ferðaþjónustunnar á þessu svæði.

Á Íslandi erum við svo lánsöm að búa við velmegun og frið. Hér hafa menn ekki borist á banaspjótum síðan á skeggöld Sturlunga fyrir um 800 árum og auðvitað er friður forsenda framfara og uppbyggingar á öllum sviðum. En þótt við höfum búið við frið þá hafa náttúruöflin oft reynst Íslendingum þung í skauti. Þannig hefur það sannarlega verið síðustu árin með röð eldgosa á Reykjanesskaga sem valdið hafa miklu tjóni og skaða. Hugur okkar er hjá þeim sem eiga um sárt að binda þegar náttúruhamfarir knýja dyra með ófyrirséðum afleiðingum.

Og ef við víkkum sjóndeildarhringinn enn frekar og skyggnumst um víða veröld þá er sú mynd sem við blasir því miður ófögur. Hörmuleg stríð hafa grandað tugþúsundum á árinu sem er að líða. Mótsagnakennt er að staðan sé þessi á öndverðri 21. öld þegar svo miklar framfarir hafa orðið á flestum sviðum, hver tæknibyltingin rekur aðra og trúin á mannsandann hefur náð hæstu hæðum.

Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg? spurði Jónas Hallgrímsson og sannast sagna er stundum eins og okkur mönnunum muni fremur aftur á bak en nokkuð á leið, svo aftur sé vitnað til listaskáldsins góða. Því miður eru mannréttindi of víða fótum troðin og hættulegt bakslag hefur komið í baráttu ýmissa minnihlutahópa fyrir réttindum sínum. Það eru blikur á lofti sem berjast verður gegn. Ég tel að stundum megi vera meiri kærleikur í samskiptum manna. Við erum stundum hreinlega ekki nógu góð hvert við annað.

Kæru íbúar Akureyrar, Hríseyjar og Grímseyjar. Ég vil þakka ykkur samstarfið á árinu sem er að líða. Það er gott að finna þann kraft sem býr í samfélaginu og þá trú sem við höfum öll á sveitarfélaginu okkar. Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar, bjartrar framtíðar, árs og friðar. Höfum hugfast það sem segir í Fyrra Korintubréfi Páls postula: Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

Megi nýtt ár verða ykkur farsælt og hamingjuríkt.

Ásthildur Sturludóttir

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó