NTC

„Vildi gjarnan sækja nám sem væri kennt hér í þessari útivistarparadís“

„Vildi gjarnan sækja nám sem væri kennt hér í þessari útivistarparadís“

Kaffið.is heldur áfram að kynnast mannlífinu í Háskólanum á Akureyri. Þessa vikuna er komið að Fanney Steinsdóttur, sálfræðinema.


Í hvaða námi ert þú?

Ég er í grunnnámi í Sálfræði.

Af hverju valdir þú þetta nám?

Sálfræðin átti í raun alltaf vel við mig, þó ég hafi ekki séð það sjálf alveg strax, en þegar ég var í framhaldsskóla voru margir í kringum mig sem mæltu með því að ég myndi fara í þetta nám eftir útskrift. Ég fór hins vegar aðrar leiðir, þar sem ég ferðaðist mikið og gerðist leiðsögukona í flúðasiglingum og fjallamennsku en ég hef alltaf haft sterkan áhuga á allskonar útivist og ferðalögum. Af eigin upplifunum og samskiptum við aðra í sama bransa varð ég vör við að þarna vantaði ákveðna þjónustu sem hlúir að þeim sem verða fyrir áföllum af ýmsum toga tengda útivist og jaðaríþróttum. Ég sá því tækifæri í því að sækja þetta nám til að sameina krafta mína á þessum sviðum til að aðstoða fólk. 

Hvers vegna valdir þú HA?

Ég bý á Akureyri og vildi gjarnan sækja nám sem væri kennt hér í þessari útivistarparadís. Einnig heillaði að geta stundað sveigjanlegt nám ef ég færi á eitthvað flakk eða skellti mér í einhver ævintýri.

Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri?

Það er pínu skrýtið að stunda nám þar sem meirihluti nemenda stundar fjarnám en það hefur gert upplifunina á háskólasvæðinu svo mun persónulegri. Viðburðir á vegum nemendafélagana hafa verið ótrúlega skemmtilegir og síðan er alltaf góð stemming þegar lotur eru haldnar á hverri önn. Ég er annars dugleg að mæta upp í skóla að læra þó það séu ekki skipulagðir tímar en það er ótrúlega notalegt umhverfi þar og gott að geta lært með öðrum á svæðinu. 

Hvað ber framtíðin í skauti sér að loknu námi?

Ég stefni á að taka klíníska námið í sálfræði en til þess þarf ég að fara suður í tvö ár. Fyrst ætla ég þó að finna mér vinnu sem tengist náminu og vinna mér inn smá reynslu áður en ég held áfram í frekara nám. Ég hugsa að ég gefi mér einnig tækifæri til að ferðast aðeins meira og taka aftur útivistina upp af fullum krafti en námið hefur verið í forgangi síðustu ár. 

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?

Ég sé fyrir mér að vera sálfræðingur með óhefðbundnu sniði, þar sem ég get sameinað útivist, íþróttir og að hjálpa öðrum með ýmis sálræn vandamál. Ég hef sjálf verið lánsöm að finna aðila sem fóru út fyrir boxið til að hjálpa mér og vonast ég til að hjálpa öðrum með því að finna fjölbreyttar leiðir sem henta þeim til að takast á við þeirra þrautir. 

Hvaða ráð myndir þú gefa nýnemum sem eru að hefja nám við háskólann?

Ég mæli eindregið með að taka þátt á nýnemadögum og öðrum viðburðum á vegum nemendafélagsins til að kynnast samnemendum. Einnig mæli ég með að vera dugleg að fara upp í skóla til að læra en það hjálpar til við að skapa rútínu og til að kynnast fólkinu á svæðinu. Ef þið hafið ekki tök á að mæta upp í skóla, verið þá dugleg að hafa kveikt á myndavélum í kennslustundum á netinu og taka þátt í umræðum. Það skiptir svo miklu máli að skapa tengsl og mynda sambönd við samnemendur eða kennara, en það hefur leitt til allskonar tækifæra fyrir mig í þessu námi. 

Hvað gerir háskólann sérstakan að þínu mati?

Fyrir mér er það hversu persónuleg samskiptin eru á milli nemenda, kennara og starfsfólks hjá háskólanum. Það er svo gott andrúmsloft upp í skóla, frábær aðstaða og auðvitað gott að geta stundað sveigjanlegt nám þegar þarf. Háskólasvæðið býður einnig upp á ótrúlega fallegt útsýni og útivistarsvæði í kring sem hægt er að njóta frá lærdómsaðstöðu sinni eða í pásum.

Hvar er besti staðurinn til þess að læra?

Ég var mikið til á teppinu fyrsta og hálfa árið í náminu en hef svo fært mig yfir á bókasafnið þar sem aðstaðan er frábær í alla staði. Svo má ekki gleyma að minna fólk á að standa upp reglulega og hreyfa sig en það er ótrúlega gott að kíkja aðeins út í ferskt loft og njóta frábæra útsýnisins í kringum skólann af og til. 

Hvernig er kaffið í HA?

Nú veit ég ekki hvort ég eigi að þora að viðurkenna þetta en ég drekk ekki kaffi… Sætabrauðið sem hægt er að fá með kaffinu í kaffiteríunni klikkar hins vegar ekki! 

Sambíó

UMMÆLI