Hlutfall innflytjanda á Íslandi er lægst á Norðaustur- og Norðvesturlandi, eða 11,8% og 10,6%. Þetta kemur fram í gögnum frá vef Hagstofu, þar segir einnig:
Innflytjendur á Íslandi voru 69.691 eða 18,2% mannfjöldans þann 1. janúar 2024. Innflytjendum hefur haldið áfram að fjölga en þeir voru 16,7% landsmanna (62.821) í fyrra. Frá árinu 2012 hefur hlutfallið farið úr 7,4% mannfjöldans upp í 18,2%. Innflytjendum af annarri kynslóð fjölgaði einnig á milli ára, voru 6.855 í byrjun árs 2023 en 7.351 á þessu ári. Samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 20,1% af mannfjöldanum og hafði það hlutfall aldrei verið hærra. Einstaklingum með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum, fjölgaði einnig lítillega á milli ára og voru 7,3% mannfjöldans.
Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra, afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis. Innflytjendur af annarri kynslóð eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent. Einstaklingur sem fæddist erlendis en á foreldra sem báðir eru fæddir hér á landi telst einnig hafa erlendan bakgrunn.
Hlutfall innflytjenda er mun lægra á Akureyri en annars staðar við Eyjafjörð og í viðtali við RÚV segir Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, að orsök þess gæti verið að stór matvinnslufyrirtæki starfi í bæjunum í kring. Það er þó að eins hluti af þessu en Þóroddur segir:
„Það er ekki það að hlutfall innflytjenda sé lágt á Akureyri heldur hlutfall erlendra innflytjenda, innlendir innflytjendur komi dálítið í staðinn fyrir það sem hefur gerst á höfuðborgarsvæðinu.“
„Akureyri dregur til sín talsvert af fólki af Norðurlandi, annað hvort beint eða óbeint,“ segir Þóroddur. Þannig sé það svo að margir sem flytja á suðurhornið eða til útlanda, svo sem til náms, flytji til Akureyrar þegar þeir snúa aftur norður.
UMMÆLI