NTC

Skagfirskur bóndi segir kindurnar sínar ekki valda loftlagsváForvitnar kindur á Eyvindarstaðaheiði. Mynd tengist frétt ekki beint. Ljósmynd: Kaffið/RFJ

Skagfirskur bóndi segir kindurnar sínar ekki valda loftlagsvá

Þórarinn Magnússon, bóndi á Frostastöðum í Skagafirði, birti nýverið skoðanapistil í Bændablaðinu sem vakið hefur umtalsverða athygli. Í greininni furðar Þórarinn sig á umræðu hér á landi um kolefnisfótspor landbúnaðar, þá sérstaklega meðal „landbúnaðarakademíunnar“ og í umfjöllun Bændablaðsins. Hann segir umræðuna oft á tíðum jaðra við skammir í garð bænda:

„Það er að sönnu ekki beinlínis sagt að bændur eigi að skammast sín eða a.m.k. að fá samviskubit fyrir að ofhita Jörðina með framferði sínu. Að framleiða mat fyrir þjóð sína. En fólk skilur fyrr en skellur í tönnum.“

Þórarinn ber saman hvernig landbúnaði er háttað á meginlandi Evrópu annars vegar og á Íslandi hins vegar:

„Í Evrópu er nánast allt landslag manngert nema e.t.v. allra nyrsti hluti álfunnar. Sums staðar er þéttleiki dýra gríðarlegur, t.d. í Danmörku og Hollandi, annars staðar akrar eins og augað eygir. Oftast umbylt á hverju ári. Opinn svörður, óvarinn fyrir veðrum og vindum. Benelúxlöndin og Rínarsvæðið með þéttbýlustu svæðum Jarðarinnar. Hér verða til kenningar – réttar eða rangar – um skaðsemi landbúnaðar, ekki síst búfjárhalds fyrir andrúmsloftið og vistkerfið!!?

Hér á Íslandi er staðan gjörólík. Fámenn þjóð í stóru landi. Víðáttumikil óræktuð beitilönd og svo tún sem a.m.k. hjá sauðfjárbændum er sárasjaldan umbylt heldur vaxin fjölærum grösum sem binda kolefni úr andrúmsloftinu og framleiða í leiðinni súrefni fyrir alla og allt sem lífsanda dregur.“ 

Grein Þórarinns ber titilinn „Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það.“ Hann segir rannsóknir sýna fram á það að hæfilega bitinn úthafi og slegin tún bindi mun meira kolefni en óbitinn úthagi eða óslegin tún.

„Að láta eins og landbúnaður, eins og hann er stundaður á Íslandi, sé einhver vá fyrir loftslagið eða líffræðilega fjölbreytni, er svo yfirgengileg bábilja að engu tali tekur.“

Pistil Þórarins í heild sinni má lesa með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI