Nýtt frumkvöðlasetur nýsköpunarfélagsins DriftEA hefur opnað í Landsbankahúsinu, Strandgötu 1. Félagið er staðsett á þriðju og fjórðu hæðum þessa sögufræga húss, sem er í eigu fjárfestingarfélagsins Kaldbaks.
Formleg opnunarhátíð DriftEA var haldin í gær, 12. desember. Starfsemi Driftar er þó nú þegar hafin, en 14 hugmyndir hafa verið teknar í svokallaða „Slipptöku.“ Smekkfullt var út að dyrum í Messanum í gær, þar sem ræðuhöld fóru fram og glatt var yfir fólki. Fréttaritarar Kaffisins mættu á viðburðinn og fylgdust með gangi mála.
Ýmsir aðilar tóku til máls á opnuninni. Fyrstu ræðurnar héldu Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson, stofnendur DriftEA, sem og Sesselja Barðdal, framkvæmdarstjóri DriftEA. Aðrir aðilar úr viðskiptalífinu og fræðasamfélaginu tóku einnig til máls og má þar nefna Áslaugu Ásgeirsdóttur, rektor Háskólans á Akureyri, Matthías Rögnvaldsson, stofnanda Stefnu og Guðmund Heiðar Hannesson, framkvæmdarstjóra Kælismiðjunnar Frost.
Alþjóðlegt þekkingarsamfélag
Þorsteinn Már Baldvinsson er forstjóri Samherja og einn af stofnendum Driftar. Í ræðu sinni sagði hann Samherja ávallt hafa gert út skip frá Eyjafirði og unnið hér fisk, bæði á Akureyri og Dalvík. Stofnun DriftEA væri því að hluta til leið til þess að sýna þakklæti sitt í garð nærsamfélagsins með því að styðja við nýsköpun á svæðinu.
Þorsteinn segir Eyjafjarðarsvæðið í raun vera alþjóðlegt þekkingarsamfélag. Hér séu mörg stór og alþjóðleg fyrirtæki sem eru í harðri samkeppni á heimsvísu. Í því samhengi mætti nefna hans fyrirtæki Samherja, en Þorsteinn minntist einnig á fyrirtæki á borð við Slippinn, Kælismiðjuna Frost, Bílaleigu Akureyrar, Skógarböðin og TKD Foil Iceland, sem á Becromal: „Með stofnun Driftar vonast ég til að verði til fyrirtæki sem bætist við í þennan hóp.“
Sögufrægt hús
Næstur talaði Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja og einn af stofnendum DriftarEA. Í ræðu sinni fjallaði hann mikið um húsið sem félagið starfar í, Strandgötu 1. Kaldbakur keypti húsið í nóvember 2022 og hefur mikil vinna verið lögð í það síðan þá. Hann reifaði sögu þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á húsinu, sérstaklega á þriðju og fjórðu hæðunum þar sem DriftEA er nú til húsa. Á þriðju hæð sagði hann nær öllu hafa verið skipt út nema flísum á baðherbergi, sem hafi þótt svo gamaldags og krúttlegar að enginn hafi tímt að fleygja þeim.
Loks kallaði Kristján opnun Driftar „einn af stóru dögunum í lífi sínu“ og sagðist sannfærður um að félagið eigi eftir að leiða af sér stórkostlega hluti í framtíðinni.
Hvað er DriftEA?
Í fréttatilkynningu frá DrfitEA er starfseminni lýst á eftirfarandi hátt:
DriftEA er ekki einungis vinnurými, heldur heildstætt stuðningsumhverfi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki með sérstaka áherslu á verkefni sem styðja við vöxt og þróun á Eyjafjarðarsvæðinu. DriftEA býður upp á handleiðslu, glæsilega vinnuaðstöðu, aðgang að öflugu tengslaneti og aðstoð við fjármögnun.
Verkefni sem fá fullan stuðning frá félaginu hafa aðgang að honum í heilt ár, sem Sesselja Barðdal, framkvæmdarstjóri Driftar, kallaði „algjöran ‚game changer,‘“ í ræðu sinni í gær. Slíkt hafi ekki boðist áður hér á landi. Sex fyrirtæki á svæðinu ásamt Háskólanum á Akureyri munu veita frumkvöðlum og nýsköpunarhugmyndum stuðning, auk þess sem sérstakir þjálfarar munu aðstoða frumkvöðla við að ná settum markmiðum.
Sesselja sagði það mikilvægt að Eyjafjarðarsvæðið verði ekki ósamkeppnishæft. Styðja þurfi við unga frumkvöðla, því ekki viljum við missa þá til höfuðborgarsvæðisins eða útlanda: „Minn draumur er sá að dæturnar mínar þrjár geti búið á Akureyri og látið drauma sína rætast.“ Þenan draum telur Sesselja ekki óraunhæfan: „Tækifærin eru til staðar, það er klárt.“
UMMÆLI