Skólastjórar í Glerárskóla og Naustaskóla á Akureyri segja að símafrí í grunnskólum Akureyrarbæjar hafi gengið vel hingað til. Þetta kemur fram í umfjöllun á vef Akureyrarbæjar.
„Góð reynsla hefur verið af símafríi í grunnskólum Akureyrarbæjar síðan símasáttmáli var innleiddur í upphafi skólaársins. Reglurnar kveða á um að símar eru ekki leyfðir á skólatíma, hvorki í skólanum né á skólalóðinni, en unglingastigið fær að nota síma í frímínútum á föstudögum,“ segir í umfjöllun á vef bæjarins.
Skólastjórarnir Eyrún Skúladóttir í Glerárskóla og Bryndís Björnsdóttir í Naustaskóla segja í samtali við Akureyri.is að breytingarnar hafa gengið vonum framar. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel og mun betur en við þorðum að vona,“ segir Eyrún og Bryndís tekur undir. „Ég viðurkenni að ég var hálfkvíðin þegar við fórum af stað, en þetta hefur gengið afskaplega vel hér í Naustaskóla.“
Þær segja að sameiginlegt átak allra grunnskóla á Akureyri hafi verið mikilvægur þáttur í velgengni verkefnisins. „Það var oft mikill ófriður vegna símanotkunar í tímum, en núna eru reglurnar einfaldlega svona og nemendur virðast lítið spá í því. Þetta hefur haft mikil og jákvæð áhrif á skólabraginn, og við erum eiginlega agndofa yfir því hvað þetta hefur gengið vel.“
UMMÆLI