Ný flugstöð og nýtt flughlað voru vígð við hátíðlega athöfn og formlega tekin í notkun á Akureyrarflugvelli í gær. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra flutti ávarp við athöfnina en hann tók fyrstu skóflustungu að viðbyggingu flugstöðvarinnar sumarið 2021. Fjölmenni var við vígsluna sem bar upp á 70 ára afmælisdag Akureyrarflugvallar, þ.á m. fulltrúar Akureyrarbæjar, Isavia og framkvæmdaaðila, kemur þetta fram á vef stjórnarráðsins, þar segir einnig:
„Hin nýju og glæsilegu mannvirki á Akureyrarflugvelli, flughlað og stækkuð flugstöð, eru mikið framfaraspor fyrir flugsamgöngur á Norðurlandi. Þau styrkja mikilvægt hlutverk Akureyrarflugvallar fyrir svæðið í kring og landið allt, fyrir tengingar innanlands, sem gátt inn í landið og sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Öflugur flugvöllur á Akureyri færir Norðurlandi mikinn ábata og ávinning þegar í stað og styður við þá stefnu að dreifa ferðafólk um allt land. Mannvirkin munu standa sem skýrt merki um sýnilegan árangur síðustu ára,“ sagði Sigurður Ingi.
„Það er ekki tilviljun að þessi dagur varð fyrir valinu til að taka þessa nýju viðbót í notkun. Fyrir sjö áratugum síðan upp á dag var Akureyrarflugvöllur vígður við hátíðlega athöfn og dagurinn því táknrænn í sögu vallarins.“ Sigrún upplýsti að ný flugstöð geti annað hálfri milljón farþega en farþegar um Akureyrarflugvöll eru um 200 þúsund árlega. Þar af eru millilandafarþegar um 16%,“ sagði Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla.
Ný og endurbætt flugstöð var unnin í þremur áföngum. Í þeim fyrsta var nýrri viðbyggingu upp á 1.100 fermetra bætt við þar sem er aðstaða fyrir lögreglu, toll, fríhafnarverslun og veitingastað. Í öðrum áfanga verksins var núverandi komusvæði flugstöðvarinnar endurbyggt en þar er nýtt innritunarsvæði. Í þriðja áfanga var núverandi innritunarsvæði og skrifstofuhluti flugstöðvarbyggingarinnar endurbyggt.
Nýja flughlaðið er 33 þúsund fermetrar að stærð og með skilgreind tvö þotusvæði. Allt í allt er hægt að taka á móti 12 til 14 flugvélum á Akureyrarflugvelli í stað 4 til 5 véla.
UMMÆLI