Úrvalsdeildin í pílukasti hélt áfram í gærkvöldi þegar seinna kvöldið í 8 manna úrslitum fór fram á Bullseye í Reykjavík.
Kolev sat í 7.sæti fyrir kvöldið og þurfti að ná í sigur til að tryggja sér þátttökurétt á úrslitakvöldinu sem fer fram næstkomandi laugardagskvöld (7.des). Efstu fjórir keppendur tryggja sér þátttökurétt á úrslitakvöldinu.
Hér er lýsing á leikjunum af vefsíðu Þór:
Fyrsti leikur hjá Kolev var á móti Kára Vagn og byrjaði leikurinn brösulega og lenti Kolev 0-3 undir, en vinna þarf fjóra leggi til að sigra leikinn. Kolev setti þá í fimmta gírinn og tók fjóra leggi í röð og tryggði sér 4-3 sigur. Næsti mótherji hans í undanúrslitum var Kristján Sigurðsson. Kolev lék við hvurn sinn fingur í þessum leik og sigraði leikinn 4-1. Kolev var með 84,4 í meðaltal í þessum leik sem telst virkilega gott. Þá var komið að úrslitaleik og þarna var orðið ljóst að Kolev þurfti á sigri að halda til að tryggja sér þátttökurétt í úrslitakvöldinu. Hann mætti Alexander Veigar og var það Alexander sem byrjaði leikinn betur og komst í 2-0. Kolev kom sér inn í leikinn með 15 pílna legg en Alexander vann næsta legg á eftir og brekkan orðin brött hjá Kolev. Sem betur fer þá fann Kolev rétta gírinn og vann síðustu þrjá leggina og tryggði sér 4-3 sigur og þar með þátttökurétt á úrslitakvöldinu sem fer fram um næstu helgi á Bullseye!
Hægt er að skoða úrslit leikja hér ásamt tölfræði.
Einnig hvetja þórsara fólk til þess að gera sér ferð á Bullseye á laugardagskvöldið og hvetja Kolev til sigurs! Það verður hópferð í boði píludeildar Þórs (AEY – RVK og til baka) fyrir áhugasama á laugardeginum og hægt er að skrá sig í hana með því að senda tölvupóst á pila@thorsport.is!
UMMÆLI