NTC

Oddvitaspjall – Theodór Ingi Ólafsson (P)

Oddvitaspjall – Theodór Ingi Ólafsson (P)

Líkt og alþjóð er kunnugt styttist nú óðum í Alþingiskosningar, en þær fara fram laugardaginn 30. Nóvember næstkomandi. Í ljósi þessa hefur Kaffið sent út stuttan spurningalista á oddvita allra framboða í Norðausturkjördæmi. Markmiðið er að gefa þessum frambjóðendum tækifæri til þess að kynna sig og framboð sín sérstaklega fyrir lesendum Kaffisins, sem flestir eru búsettir á Akureyri og Norðurlandi almennt.

Theodór Ingi Ólafsson, forstöðumaður í íbúðakjarna fyrir geðfatlaða, er efstur á framboðslista Pírata í Norðausturkjördæmi fyrir komandi kosningar. Svör hans við oddvitaspurningum Kaffisins er að finna hér að neðan.

Hver eru helstu stefnumál þíns flokks fyrir komandi kosningar?

Helstu stefnumál eru flokksins eru mörg og mikilvæg. Þar má nefna húsnæðismálin, umhverfismál, heilbrigðismál og þá sérstaklega geðheilbrigðismál. Þetta eru málefni sem brenna á flestum og í þeim er hægt að gera svo mikið betur, sérstaklega geðheilbrigðismálum. Ég hvet fólk til að kynna sér stefnurnar betur á heimasíðu Pírata.

Segjum sem svo að flokkurinn þinn fengi meirihluta atkvæða á landsvísu og gæti einn myndað ríkisstjórn. Hvert yrði fyrsta mál á dagskrá?

Í fullkomnum heimi væri þetta að fara að gerast. Ég ætla að svara þessari spurningu út frá minni sýn. Fyrsta málið sem ég legði áherslu á að tækla væri geðheilbrigðismálin. Við gætum verið að spara okkur svo mikinn pening í framtíðinni með því að grípa strax inn í. Sérstaklega þegar kemur að börnum. Ég vinn sjálfur í geðheilbrigðigeiranum og ég hef t.d. séð það með eigin augum hvernig það hefði mátt spara hundruðir milljóna í einu máli, með því að veita viðkomandi viðeigandi þjónustu sem barn og unglingur. Það hefði aldrei kostað jafnmikið. Í því tilfelli var verið að kasta krónunni fyrir aurinn. 

Finnst þér nægilega vel stutt við íbúa landsbyggðarinnar eins og staðan er í dag? Ef ekki, hvað viljið þú og þinn flokkur gera betur ef þið komist í ríkisstjórn?

Eftir að hafa ferðast um kjördæmið undanfarna vikur þá er það morgunljóst að það er hægt að gera svo mikið betur. Öll sveitafélög eiga að vera sjálfbær og geta boðið upp á grunnþjónustu fyrir íbúa sína. Við viljum efla nærsamfélögin með því að draga úr miðstýringu og færa ákvörðunartöku í málefnum byggða og sveitafélaga í auknum mæli til þeirra. Einnig viljum við tryggja að stærra hlutfall skatttekna sem verða til í sveitafélögum verði þar eftir. 

Hvaða málefni finnst þér skipta sérstöku máli fyrir Norðausturkjördæmi?

Eftir að hafa talað við fólk út um allt þá heyrist manni að heilbrigðismál og þá sérstaklega geðheilbrigðismálin skipta fólk miklu máli. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni þarf að vera svo miklu betri. Samgöngumálin eru einnig mjög mikilvæg heyrir maður og það má alveg segja að betri samgöngur séu hluti af betri heilbrigðisþjónustu. Svo skipta húsnæðis- og efnahagsmál alla miklu máli. 

Af hverju ættu Norðlendingar að kjósa þinn flokk?

Norðlendingar sem og aðrir ættu að kjósa Pírata því við viljum góð og vönduð vinnubrögð á Alþingi. Við leggjum mikla áherslu á gagnsæi og lýðræði. Almenningur á að vita hvernig ákvarðanir eru teknar og efla þarf aðkomu almennings að ákvarðanatöku. Ef þið viljið hafa fólk á þingi sem vinnur vinnuna sína þá eru Píratar augljós kostur.

Ein létt að lokum, hvernig tekurðu kaffið þitt?

Svart, svart eins og sálin í …………

VG

UMMÆLI