Frétt sem birtist á Vísi í gær hafði það eftir Sigríði Huld Jónsdóttur, skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, að frambjóðendum Miðflokksins hafi verið vísað út úr skólanum af aðstoðarskólameistara. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og oddviti í Norðausturkjördæmi, neitaði því seinna á Facebook síðu sinni að hafa verið vísað út.
Komu aftur til að svara tollaspurningunni
Umrætt atvik átti sér stað undir lok skóladags í gær. Forsagan er þannig að í gærmorgun stóð nemendafélag VMA fyrir pallborðsumræðum með frambjóðendum til Alþingiskosninga. Þar fengu nemendur tækifæri til þess að spyrja frambjóðendur spurninga. Inga Dís Sigurðardóttir, kennari sem skipar 4. sæti á lista Norðausturkjördæmi var fulltrúi Miðflokksins á fundinum og fékk til sín tvær spurningar, eina um Klaustursmálið og aðra um tolla á erlendum landbúnaðarvörum.
Seinna um daginn mættu þrír frambjóðendur Miðflokksins aftur í VMA. Það voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorgrímur Sigmundsson og Ágústa Ágústsdóttir, en þau skipa efstu þrjú sætin á framboðslista fokksins í Norðausturkjördæmi. Sigríður skólameistari sagði þau hafa mætt í skólann án þess að biðja um leyfi, en að þeim hafi verið sagt að þau mættu að sjálfsögðu vera í alrými byggingarinnar, svo lengi sem þau færu ekki inn í skólann sjálfan.
Að sögn Sigríðar sögðust frambjóðendurnir hafa snúið aftur til þess að svara betur spurningunni um tollana. Á kosningarfundinum fyrr um daginn hafði nemandi spurt Ingu Dís, fulltrúa Miðflokksins, hvort það hafi ekki verið ríkisstjórn Sigmundar Davíðs sem að stóð fyrir síðustu tollalækkun á innfluttum matvælum og landbúnaðarvörum. Nemandanum þótti þetta ekki stemma við málflutning Miðflokksins í tollamálum. Inga Dís viðurkenndi þá opinskátt að hún vissi einfaldlega ekki svarið við þeirri spurningu.
Þar að auki segir Sigríður frambjóðendurna hafa lýst yfir óánægju með framkomu nemenda á fundinum: „Þau lýstu yfir að þau væru mjög ósatt við nemendur á þessum fundi, þau hafi verið dónaleg og ómálefnaleg, sem ég var ekki sammála.“
Vísað út fyrir að krota á varning annarra flokka
Í samtali við Vísi sagði Sigríður að frambjóðendunum hafi verið vísað út úr skólanum: „Stuttu seinna frétti ég það að aðstoðarskólameistari vísaði þeim út af því að þá var formaður Miðflokksins að teikna á myndir annars framboðs og húfu sem annað framboð hafði gefið.“
Í Facebook færslu í gær sem finna má hér að neðan gengst Sigmundur Davíð við því að hafa teiknað á varninginn, en segist ekki hafa verið vísað út fyrir gjörninginn: „Hvorki [skólameistarinn] né nokkur annar starfsmaður báðu mig að fara út.“ Í færslunni kallar hann skólameistara VMA „Samfylkingaraktívistann,“ en Sigríður Huld hefur áður setið í bæjarráði Akureyrarbæjar fyrir hönd Samfylkingarinnar.
Umræddar „skreytingar,“ eins og Sigmundur kallar þær, má sjá á myndinni hér að neðan. „Simmi D“ var skrifað á húfu merkta Flokki fólksins og blaðling merktan Framsókn. Þar að auki hefur verið krotað yfir merki beggja flokkanna og yfirvaraskegg og augabrúnir teiknuð á andlit Ingibjargar Isaksen og Þórarins Inga Péturssonar, frambjóðendur Framsóknar.
„Þarna kemur Framsóknardrengurinn“
Facebook færsla frá móður nemandans sem spurði um tollamál á fundinum hefur fengið talsverða athygli í dag. Þar segir hún að frambjóðandi Miðflokksins hafi í heimsókninni uppnefnt son sinn „Framsóknardrenginn“ fyrir spurningu sína. Hún segir einnig að frásögnum beri ekki alveg saman og hugsanlega hafi viðurnefnið verið Framsóknarfávitinn eða Framsóknardjöfullinn. Úr færslu móðurinnar:
[Sonur minn] og félagar fóru ekki samtímis úr kennslustofunni og einn félaginn fór á undan. Þegar hann gengur fram heyrist í einum frambjóðanda Miðflokksins ‚þarna kemur framsóknar drengurinn/fávitinn/djöfullinn‘. Félaginn ber af sér sakir og þegar Baldvin gengur út skömmu seinna glymur aftur í frambjóðanda Miðflokksins ‚þarna er sökudólgurinn‘.
UMMÆLI