Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar sótti í síðustu viku fund bæjarstjóra á norðurslóðum í Tromsö í Noregi. Norðurslóðir eru skilgreindar sem ákveðið svæði í kringum Norðurheimskautið og var fundur bæjarstjóranna hluti af stórri alþjóðlegri ráðstefnu Arctic Frontiers þar sem fræðimenn og fólk úr stjórnsýslu og viðskiptum fjallar um sjálfbæra þróun og tækifæri til hagvaxtar í sátt við umhverfið á norðurslóðum.
Bæjarstjórarnir ræddu meðal annars þróun upplýsingatækni á sviði heilbrigðis-, umhverfis- og orkumála, nýsköpun fyrir tilstuðlan samstarfs fræðasamfélagsins, stjórnsýslunnar og viðskiptalífsins, borgarskipulag og þróun á sviði sjálfbærrar orkunýtingar.
Eiríkur Björn segir að fundur bæjarstjóranna hafi verið upplýsandi og gagnlegur í alla staði. Hann segir mikilvægt að Akureyri taki þátt í samstarfi þjóða og sveitarfélaga á norðurslóðum.
„Öll eigum við mikilla hagsmuna að gæta hvað varðar nýtingu auðlindanna í sátt við umhverfið. Akureyri hefur verið í fararbroddi á Íslandi í nýtingu og framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti og vistvænum orkugjöfum, endurvinnslu og sjálfbærni. Önnur sveitarfélög í heiminum hafa mikinn áhuga á því sem við erum að gera á þessu sviði og við stefnum ótrauð að því að gera bæinn okkar kolefnishlutlausan,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri við heimasíðu Akureyrarbæjar.
UMMÆLI