NTC

Áhrif þjóðaréttar í vopnuðum átökum

Áhrif þjóðaréttar í vopnuðum átökum

Miðvikudaginn 5. nóvember nk. flytja Cristina Cretu og Elva Rún Sveinsdóttir erindi á Lögfræðitorgi um áhrif þjóðaréttar (alþjóðalaga) í vopnuðum átökum. Erindin bera nánar tiltekið yfirskriftina: Meðalhófsreglan í þjóðarétti, sjálfsvarnarréttur ríkja og stríðsglæpir í Úkraínu og á Gasasvæðinu. Torgið er haldið í stofu M101 í Háskólanum á Akureyri, kl. 12:35-13:25, en því er einnig streymt á sama tíma. Erindin eru haldin á íslensku og aðgangur er öllum opinn og ókeypis. Fundarstjóri er Ingibjörg Ingvadóttir, brautarstjóri við Lagadeild HA.

Þær Elva og Cristina stunda meistaranám í lögfræði við Lagadeild HA, en þær hafa rannsakað mál er varða alþjóðlega lagaumgjörð vopnaðra átaka og ætla að standa fyrir framangreindu lögfræðitorgi í samstarfi við lagadeildina. Erindi þeirra byggja á lokaverkefnum þeirra til BA gráðu í lögfræði frá Lagadeild HA, sem rituð voru á ensku og bera annars vegar heitið „The Principle of Proportionality in International Law in Light of Recent Conflicts: To What Extent Does the Principle of Proportionality Limit States’ Inherent Right to Self-Defence?“ og hins vegar „War Crimes Against Children in International Law: An Analysis of the Six Grave Violations.“ Leiðbeinandi Cristinu var dr. Romain Francois R. Chuffart, Nansen prófessor í Norðurslóðamálum við HA, og leiðbeinandi Elvu var Valgerður Guðmundsdóttir, doktorsnemi og lektor við Lagadeild HA.

Þær Cristina og Elva hafa þannig rannsakað mál er varða alþjóðlega lagaumgjörð vopnaðra átaka. Á torginu fjalla þær um meðalhófsregluna í tengslum við sjálfsvarnarrétt ríkja og hvernig brot gegn reglunni geta talist til stríðsglæpa. Sérstök áhersla verður lögð á átökin í Úkraínu og á Gasasvæðinu. 

Hér er Facebook viðburður fyrir viðburðinn.

Hér að neðan er nánari kynning á þeim málefnum sem verða til umfjöllunar á Lögfræðitorginu að þessu sinni:

Heimurinn stóð á öndinni þegar Rússland hóf innrás í Úkraínu þann 24. febrúar 2022 en í millitíðinni hafði staðan í Mið-Austurlöndum náð suðumarki, sem leiddi til árásar Hamassamtakanna í Ísrael þann 7. október 2023. Ekki sér fyrir endann á þessum átökum og hafa brot gegn börnum í vopnuðum átökum í kjölfarið orðið eitt af helstu áhyggjuefnum alþjóðasamfélagsins. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur skilgreint eftirfarandi sex tegundir af alvarlegum brotum gegn börnum í vopnuðum átökum; þátttaka barna í hernaði, manndráp og limlestingar, kynferðisofbeldi, árásir á skóla og sjúkrahús, nauðungarflutningar barna og hindranir á mannúðaraðstoð. Þessi brot eru ekki aðeins andstæð reglum þjóðaréttar, heldur vekja þau einnig spurningar um áhrif og framfylgd þeirra reglna sem eiga að vernda börn í stríðsátökum. 

Þó að alþjóðlegur mannúðarréttur viðurkenni að dauðsföll óbreyttra borgara geti átt sér stað í stríði, kveður meðalhófsreglan á um að hernaðarlegur ávinningur aðgerða verði að vega mun þyngra en skaðinn. Að jafnaði njóta ríki sjálfsvarnarréttar samkvæmt 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, en aðgerðir framkvæmdar í sjálfsvörn verða að vera í samræmi við meðalhófsregluna til þess að geta talist réttlætanlegar. Nýleg átök í Úkraínu og á Gasasvæðinu hafa varpað ljósi á flókið eðli meðalhófsreglunnar og beitingu hennar, bæði í sjálfsvarnaraðgerðum og í framkvæmd hernaðaraðgerða almennt. 

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur á síðustu árum dregið til ábyrgðar einstaklinga fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Dómstóllinn hefur ásakað leiðtoga Rússlands um stríðsglæpi en nýlega lagði hann fram beiðni um handtökuskipanir á hendur leiðtoga Hamassamtakanna og Ísrael vegna meintrar ábyrgðar þeirra á stríðsglæpum síðastliðin ár. Samt sem áður eru áframhaldandi áskoranir til staðar hvað varðar framfylgd refsinga og forvarnaraðgerða til að tryggja vernd óbreyttra borgara í vopnuðum átökum. 

Lögfræðitorg eru haldin í öllum staðlotum Lagadeildar HA og eru stundum fleiri en eitt. Slíka viðburði má kynna sér á undir viðburðum á vefsíðu skólans. Þar má einnig finna streymishlekki.

Sambíó

UMMÆLI