NTC

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin í Eyjafirði í síðustu viku, nánar tiltekið í Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppi og Grýtubakkahreppi. Farið var í heimsóknir til ýmissa ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu, sem bjóða bæði afþreyingu, mat og gistingu ásamt ýmsu öðru.

Fyrirtæki ársins

Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi.

Íslenski hesturinn hefur spilað lykilhlutverk í þróun Íslands sem áfangastaðar í ferðaþjónustu, þar sem fyrirtækin sem bjóða upp á hestaferðir hafa búið til afþreyingu sem er bæði eftirsótt og einstök. Að þessu sinni er það Pólarhestar hlýtur viðurkenninguna fyrirtæki ársins. Fyrirtækið er rótgróið og fagnar 40 ára afmæli á næsta ári. Þar er þó ekki slegið slöku við eftir allan þennan tíma, heldur hafa forsvarsmenn fyrirtækisins stöðugt sótt inn á markaði og aðlagað sig að aðstæðum hverju sinni. Fyrirtækið býður upp á hestaferðir allan ársins hring og leggur áherslu á persónuleg samskipti og góða tengingu við sína gesti til að tryggja að þeirra upplifun verði sem allra best. Þessi atriði skipta höfuðmáli þegar kemur að þróun áfangastaðarins Norðurlands og eiga sinn þátt í því að stuðla að minni árstíðarsveiflu, þegar boðið er upp á afþreyingu sem innlendar og erlendar ferðaskrifstofur geta boðið upp á í sínum vetrarferðum. Stefán og Júlíana, eigendur fyrirtækisins, hafa átt í góðu samstarfi við önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu, kynnt áfangastaðinn Norðurland og verið duglegt við að benda ferðalöngum á það sem ekki má missa af í nágrenni þess. Slík vinnubrögð eru öllum til hagsbóta og til fyrirmyndar.

Störf í þágu ferðaþjónustu

Viðurkenninguna fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi fær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Í ár er það Rúnar Óskarsson, eigandi Fjallasýnar. Fyrirtæki Rúnars hefur verið starfandi í meira en fjörutíu ár og hefur alla tíð lagt áherslu á ferðalög um Norðurland, þá sérstaklega Norðurhjarasvæðið og Demantshringinn. Höfuðstöðvar þess eru í Reykjahverfi en býður þjónustu sína um allt land sé þess óskað. Rúnar hefur verið mikill talsmaður þess að vetrarferðaþjónusta á Norðurlandi verði efld, til að renna styrkari stoðum undir bæði hans fyrirtæki og önnur í ferðaþjónustu eða henni tengdri. Norðlensk ferðaþjónusta hefur þannig notið þessa krafts sem hefur fylgt Rúnari og fjölskyldu hans sem starfar hjá fyrirtækinu, eiginkonu hans Huldu Jónu og syni þeirra Andra.

Vöruframboð fyrirtækisins hefur verið fjölbreytt og einkennst af sveigjanleikja og góðri þjónustu. Til viðbótar við skipulagðar hópaferðir hefur Fjallasýn boðið upp á flugvallarskutl, trúss fyrir gönguhópa, skólaakstur, ferliþjónustu og snjómokstur svo eitthvað sé nefnt. Samgöngumál hafa eðli málsins samkvæmt verið honum mikilvæg og má þar nefna dæmi eins og uppbyggingu Dettifossvegar og vetrarþjónustu á honum. Þar hefur Rúnar látið til sín taka í þágu ferðaþjónustunnar allrar og um leið bættra lífsgæða íbúa í nærumhverfi Fjallasýnar. 

Hvatningarverðlaun

Hvatningarverðlaun hlýtur Kakalaskáli. Á Kringlumýri í Skagafirði, örskammt frá þjóðvegi 1, hefur átt sér stað fjölbreytt uppbygging frá árinu 2008 þar sem nú er hægt að sjá sýningar um sögu Sturlungaaldar og hinn mannskæða Haugsnesbardaga sem var háður í apríl 1246. Boðið eru upp á hljóðleiðsögn á fimm tungumálum og er þar að finna listaverk eftir listafólk frá 10 löndum. Eigendurnir Sigurður Hansen og María Guðmundsdóttir hafa lagt mikinn metnað í sýningarnar og þjónustu við gesti sem koma til þeirra. Kakalaskáli hefur þannig unnið sér inn sess sem áhugaverður valmöguleiki í afþreyingu á svæðinu. Auk þess hafa þau hjónin verið öflug í samstarfi um menningartengda ferðaþjónustu í sínu nærumhverfi og lagt sín lóð á vogarskálarnar til að bæta hana svo um munar. Þess ber að geta að árið 2015 hlaut Sigurður fálkaorðinu fyrir sitt framlag til kynningar á sögu og arfleifð Sturlungaaldar. 

Þau Sigurður og María höfðu því miður ekki tök á að vera viðstödd afhendingu viðurkenningarinnar og Evelyn Ýr Kuhne frá Lýtingsstöðum tók því við henni fyrir þeirra hönd. Viðurkenningunni verður komið til þeirra við fyrsta tækifæri.

Smelltu hér til að skoða myndir frá Uppskeruhátíð 2024

VG

UMMÆLI

Sambíó