NTC

Rjúpnaveiðar hefjast á morgun – Tuttugu veiðidagar á NorðurlandiTignarleg rjúpa við Hvammfell í Mývatnssveit. Ljósmynd: Kaffið/RFJ.

Rjúpnaveiðar hefjast á morgun – Tuttugu veiðidagar á Norðurlandi

Rjúpnaveiðitímabilið í ár hefst á morgun, föstudaginn 25. október. Í ár verður veiðitímabil mislangt eftir landshlutum. Tímabilið á Norðaustur- og Norðvesturlandi spannar 26 daga frá 25. október til 19. nóvember. Þar af er veiði leyfð í tuttugu daga, en ekki verður heimilt að veiða á miðvikudögum og fimmtudögum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra í gær. Í henni er veiðimönnum sérstaklega bent á að hafa reglurnar í ár á hreinu þar sem talsverðar breytingar hafi orðið á veiðistjórnunarkerfi frá síðasta tímabili. Sölubann á rjúpu er þó enn í gildi. Úr tilkynningu lögreglu:

„Veiðireglur: Veiði er heimil föstudaga til þriðjudaga (báðir dagar meðtaldir) innan veiðitímabils. Því er ekki heimilt að veiða á miðvikudögum og fimmtudögum. Veiðidagar eru heilir (það má veiða allan daginn). Veiðitímabilið fyrir Norðurland eystra spannar 20 daga, þ.e. frá 25. október til 19. nóvember. Enn er sölubann á rjúpu.

Svæðisskipt veiðitímabil: Ekki er lengur eitt veiðitímabil fyrir landið í heild heldur geta þau verið mislöng á milli landshluta. Svæðisskiptinguna (ásamt bannsvæðum rjúpnaveiða) má sjá í kortasjá Umhverfisstofnunar. Veiðidagafjöldi og veiðitímabil landshlutanna sjást á meðfylgjandi mynd.

Veiðimenn, farið að reglum, hafið gilt veiðikort, lögleg vopn, verið vel og rétt búnir og farið að öllu með gát.“

Í fjórum landshlutum (Norðausturlandi, Norðvesturlandi, Vesturlandi og Suðurlandi) er tímabilið jafn langt, eða 20 veiðidagar. Á Vestfjörðum eru veiðidagarnir 25 og lengst er tímabilið á Austurlandi, en þar spannar tímabilið 43 veiðidaga þetta árið.

Ljósmynd: Lögreglan á Norðurlandi eystra.
VG

UMMÆLI