Skiptinemar standa fyrir fatamarkaði til styrktar Rauða krossinumNemarnir sortera föt fyrir stóra daginn. Frá vinstri til hægri: Alena Jelinko, Pauline Poitoux og Daniel Grygorachyk.

Skiptinemar standa fyrir fatamarkaði til styrktar Rauða krossinum

Skiptinemar við Háskólann á Akureyri hafa efnt til „pop-up“ fatamarkaðar í Háskólanum á Akureyri til styrktar Rauða krossinum. Um er að ræða samstarfsverkefni milli Rauða krossins, umhverfisnefndar háskólans og skiptinemanna sjálfra.

Markaðurinn verður staðsettur í anddyri Borga og verður opinn frá klukkan 13:00 til 15:00 á morgun, fimmtudaginn 24. október, sem og á föstudaginn 25. október klukkan 09:00 til 12:00. Ágóði af fötunum mun renna óskiptur til Rauða Krossins.

„Það hefur verið svo yndislegt hvernig þau tóku þetta verkefni bara í fangið,“ segir Sóley Björk Stefánsdóttir, verkefnastjóri í Eyjafjarðardeild Rauða krossins í samtali við Kaffið, en nemendurnir höfðu einmitt sjálfir frumkvæðið að fatamarkaðinum.

„I think its very important to give back to the community I’m living in,“ segir Daniel Grygorachyk, einn skipuleggjanda markaðsins, í samtali við Kaffið. Daniel er frá Kanada en stundar þessa stundina skiptinám við Háskólann á Akureyri. Í næstu viku mun hann hefja störf sem sjálfboðaliði í fataverslun Rauða Krossins hér í bæ.

Daniel hafði á dögunum samband við Rauða Krossinn við Eyjafjörð á samfélagsmiðlum og óskaði eftir að fá að leggja hönd á plóg við starf samtakanna. Hann lét það þó ekki duga að hjálpa sjálfur til, heldur hafði strax samband við aðra skiptinema við HA og bað þá um að slást í lið með sér. Alena Jelinko, skiptinemi frá Tékklandi og Pauline Poitoux, skiptinemi frá Frakklandi, voru þá ekki lengi að rétta fram hjálparhönd. Að sögn Daniels hafði Alena nú þegar haft sjálf samband við Rauða Krossinn í von um að hjálpa til áður en Daniel hafði samband við hana. Daniel, Alena og Pauline hafa síðan staðið að skipulagningu markaðsins sem opnar á morgun.

Þeir sem ekki þekkja til geta séð á myndinni hvar Borgir er að finna, en það er hærri byggingin austan við meginbyggingu Háskólans. Ljósmynd: Háskólinn á Akureyri.
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó