Bleikhærðir bræður í VMA sýna konum með krabbamein stuðning í verkiLjósmynd: Verkmenntaskólinn á Akureyri

Bleikhærðir bræður í VMA sýna konum með krabbamein stuðning í verki

Bræðurnir Eyjólfur Ágúst og Jóhannes Þór Hjörleifssynir hafa gengið bleikhærðir um bæinn í októbermánuði. Þetta gera þeir í þeim tilgangi að sýna krabbameinsgreindum konum stuðning í verki. Bræðurninr eru báðir nemendur í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Eftirfarandi umfjöllun um framtak þeirra birtist á vefsíðu skólans í dag í tilefni Bleika dagsins:

Bleiki dagurinn er í dag, 23. október, en hann er haldinn til þess að sýna öllum konum sem hafa greinst með krabbamein stuðning og samstöðu. Á þessum degi eru  landsmenn hvattir til þess að klæðast bleiku, lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma og að sjálfsögðu bera bleiku slaufuna sem hefur verið til sölu núna í október.

Bræður frá bænum Kvíaholti á Mýrum, Eyjólfur Ágúst (f. 2008) og Jóhannes Þór (f. 2006) Hjörleifssynir, sem báðir stunda nám í VMA, hafa allan þennan mánuð verið með hárið sitt bleikt. Með því vilja þeir minna á mikilvægi þess að styðja við bakið á konum sem hafa greinst með krabbamein og efla forvarnir gegn krabbameini.  Eyjólfur segir að með þessu vilji þeir bræður sýna móður þeirra, sem hefur síðan 2017 í tvígang greinst með krabbamein, sem og öllum konum sem glími við þennan sjúkdóm, stuðning í verki.

Jóhannes er á þriðja ári í vélstjórnarnámi í VMA og í október fyrir tveimur árum gerði hann það sama og nú, spreyjaði hár sitt bleikt. Eyjólfur hóf nám í VMA núna í haust og er í grunndeild málmiðnaðar. Í framhaldinu stefnir hann líka í vélstjórn. Þeim bræðrum, sem báðir búa á Heimavist VMA og MA, þótti tilvalið að spreyja hár sitt bleikt núna í október og vekja þannig athygli á þessu mikilvæga málefni.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó