Framsókn

„Lítið saklaust myndband“ varð til þess að Harpa er nú með sína fyrstu vöru á markaði – Stefnumótaspilið fer í forsölu á morgunLjósmyndir: Heiða Sveinsdóttir

„Lítið saklaust myndband“ varð til þess að Harpa er nú með sína fyrstu vöru á markaði – Stefnumótaspilið fer í forsölu á morgun

Harpa Lind Hjálmarsdóttir, fjölskyldukona, frumkvöðull og áhrifavaldur með meiru, hefur aldeilis haft nóg á sinni könnu upp á síðkastið. Til viðbótar við hennar ófáu önnur störf hefur hún frá því í janúar unnið hörðum höndum að Stefnumótaspilinu. Eftir langt þróunarferli er þessi fyrsta vara Hörpu nú tilbúin til þess að líta dagsins ljós og hefst forsala á morgun, mánudaginn 28. október, klukkan 12:00. Þeir sem eru allra sneggstir á músinni geta svo átt von á glaðningi, en svokallaður „PR pakki“ mun fylgja fyrstu 45 spilunum. Forsala fer fram á Stefnumótaspilið.is.

Hvað er Stefnumótaspilið?

Um er að ræða spilastokk sem hefur að geyma 52 hugmyndir af stefnumótum, eina fyrir hverja viku ársins. Ætlunin er síðan að elskuhugar skiptist á, til dæmis vikulega, að draga spil úr stokknum og hrinda þeirri hugmynd í framkvæmd. Á pakkningunni segir að tilgangur spilsins sé að hvetja pör til þess að vera duglegri að fara á stefnumót og njóta lífsins saman. Harpa stefnir á að spilið verði komið í hillur verslana snemma í nóvember og verður það fáanlegt í Hagkaup, A4 og á Stefnumótaspilið.is.

„Lítið saklaust myndband“ sem vatt aldeilis upp á sig

Líkt og Harpa segir sjálf frá í færslu á Instagram, þá hefst sagan í raun á síðasta ári, nánar tiltekið þann 31. ágúst 2023. Þann dag setti Harpa „lítið saklaust myndband“ myndband inn á TikTok síðu sína sem varð seinna kveikjan að Stefnumótaspilinu. Í myndbandinu skrifa Harpa og eiginmaður hennar, Sigþór Gunnar Jónsson, stefnumótahugmyndir sínar niður á blað og útskýrir Harpa að þau muni síðan skiptast á að draga blöð úr bunkanum vikulega og hrinda þeirri hugmynd í framkvæmd. Í raun og veru var þar hugmyndin sem seinna varð að Stefnumótaspilinu svo gott sem fullmótuð. Sumar af þeim hugmyndum sem Harpa og Sigþór skrifa á blöðin í myndbandinu hafa meira að segja orðið að spilum í lokaútgáfu Stefnumótaspilsins, til dæmis skemmtilega nefnda spilið „laaaaangur göngutúr.“

@harpalindh

Hversu skemmtilegt! 🤩 Hlakka til allra miðvikudaga í vetur🥳 Og þið fáið að fylgjast með!

♬ original sound – Harpa Lind 🤍

Eftir að Harpa birti þetta myndband fór hún að sýna frá þessum vikulegu stefnumótum hennar Sigþórs á TikTok og fékk heldur betur athygli fyrir. Myndböndin nutu mikilla vinsælda og fjallað var um þau Sigþór í hinum ýmsu fjölmiðlum, þar á meðal Smartlandi, Vísi og auðvitað hér á Kaffinu.

Stór áfangi

Fréttaritari átti stutt spjall við Hörpu á dögunum og var auðséð hversu spennt hún var fyrir nýju vörunni. Hugmyndin hefur blundað í henni frá því í september í fyrra og því stór áfangi að hún sé loks að verða að veruleika. Líkt og búast mætti við er auðvitað eitthvað um áhyggjur líka, en líkt og áður segir er Stefnumótaspilið fyrsta varan sem Harpa gefur út á almennan markað: „Þess vegna veit ég ekki neitt,“ segir Harpa og hlær. Á heildina að líta er hún þó bjartsýn og fullviss um að hún sé með góða vöru í höndunum.

Stefnumót, stefnumót, stefnumót

Harpa sýnir enn reglulega frá stefnumótum hennar Sigþórs á TikTok síðu sinni, en ekki endilega í hverri einustu viku. Skiljanlega vilja hjónin stundum eiga saman stund án þess að deila henni með netverjum og alþjóð. Aðspurð segir hún þó að sannarlega séu stefnumót þeirra enn vikuleg, líkt og Stefnumótaspilið hvetur til, enda geti þau ekki farið að gefa eitthvað út sem þau séu svo ekki að gera sjálf.

Segja má að stefnumót séu ákveðinn miðpunktur í starfsferli Hörpu. Stefnumót eru eitt af helstu viðfangsefnum TikTok síðu hennar, sem er jú hennar starf, hún gefur nú út Stefnumótaspilið sem sína fyrstu vöru og síðast en ekki síst hefur hún verið með viðtalsþáttinn Stefnumót með Hörpu hér á Kaffinu. Sá þáttur hefur notið mikilla vinsælda og segir Harpa að hún fái reglulegar fyrirspurnir um hvenær hann snúi aftur, en þátturinn hefur legið í dvala um nokkurra mánaða skeið. Af gefnu tilefni er lesendum því bent á að fylgjast vel með hér á Kaffinu, því aðeins er um smá pásu að ræða. Stefnumót með Hörpu mun snúa aftur á KaffiðTV. Þegar sá þáttur hóf fyrst göngu sína tók Kaffið ítarlegt viðtal við Hörpu um lífið og tilveruna. Lesendur sem vilja kynnast Hörpu betur geta fundið það viðtal hér að neðan:

Harpa Lind Hjálmarsdóttir er samstarfsaðili Kaffisins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó