Kári Gautason, knattspyrnumaður og nemi í iðnaðar- og orkutæknifræði, er annar viðmælandi Kaffið.is í nýjum lið þar sem við fáum að kynnast fólkinu í Háskólanum á Akureyri.
Af hverju valdir þú þetta iðnaðar- og orkutæknifræði?
Ég byrjaði í verkfræði fyrir sunnan þar sem það er innan áhugasviðs míns. Ég er í fótbolta hjá KA og langaði helst að flytja norður til að geta sinnt honum sem best. Ég fór að skoða námið sem var í boði hjá HA og rakst þá á iðnaðar- og orkutæknifræði, eitthvað sem ég hafði aldrei heyrt um fyrr. Ég las mér til um námið og fannst það hljóma virkilega gagnlega og skemmtilega. Ég ákvað því að skipta um nám, skellti mér norður og ákvað að prófa tæknifræðina. Hingað til hefur ákvörðunin reynst mér mjög vel og ég sé alls ekki eftir henni.
Hvers vegna valdir þú HA?
Ég valdi HA af því ég vildi vera fyrir norðan svo ég gæti sinnt fótboltanum af alvöru samhliða náminu. Það er frábært að það sé komin tæknifræði við HA þar sem það hafa ekki verið margir valkostir fyrir fólk að norðan sem langar í verkfræði/tæknifræði. Þeir sem hafa áhuga á því hafa hingað til þurft að flytja suður eða jafnvel til útlanda.
Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri?
Háskólalífið í HA hefur verið líflegt. Ég er í nemendafélaginu DATA sem er fyrir stúdenta í tækni- og tölvunarfræði. DATA hefur verið duglegt að plana vísindaferðir í alls konar fyrirtæki sem hafa verið skemmtilegar og gagnlegar til að kynnast því aðeins hvað tekur við eftir námið.
Hvað ber framtíðin í skauti sér að loknu námi?
Ég stefni á að fara í framhaldsnám í verkfræði. Annars er það bara að sjá hvernig fótboltinn þróast og samstilla hann við námið.
Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?
Það er bara galopið og ekkert ákveðið. Ég ætla bara að sjá hvaða tækifæri bjóðast mér og passa að það sé eitthvað skemmtilegt.
Hvaða ráð myndir þú gefa nýnemum sem eru að hefja nám við háskólann?
Skipuleggja sig vel. Ekki alltaf ætla að klára allt í einu á seinustu stundu. Ekki vera hrædd við að prófa eitthvað nám, því ef þetta er ekki eitthvað fyrir þig þá getur þú bara hætt. Það er betra að prófa eitthvað sem er ekki fyrir þig en prófa aldrei eitthvað sem er fyrir þig. Finna eitthvað sem þú hefur gaman af og læra það.
Sjá einnig: „Háskólalífið á Akureyri er einstaklega gott“
Hvað gerir háskólann sérstakan að þínu mati?
Hvað stúdentar hafa gott aðgengi að kennurum og starfsfólki ef það vantar aðstoð. En svo er helsti kosturinn auðvitað að skólinn er staddur í nafla alheimsins, á Akureyri.
Hvar er besti staðurinn til þess að læra?
Uppáhalds staðurinn minn er L102, þar erum við í tæknifræðinni með verklega aðstöðu þar sem við erum mikið að leika okkur t.d. með 3D-prentara. En annars virðist Teppið vera vinsælasti staðurinn hjá stúdentum, það er alltaf eitthvað líf þar.
Hvernig er kaffið í HA?
Kaffið er skítsæmilegt. Það er bæði Nespresso vél og uppáhellt sem er gott að rótera á milli.
UMMÆLI