„Háskólalífið á Akureyri er einstaklega gott“

„Háskólalífið á Akureyri er einstaklega gott“

Í vetur mun Kaffið.is kynnast nemendum og starfsfólki Háskólans á Akureyri og birta vikuleg viðtöl hér á vefnum. Una M. Eggertsdóttir, forseti nemandafélagsins Stafnbúa er fyrsti viðmælandinn.


Í hvaða námi ert þú ? 

Ég stunda nám í viðskipta- og sjávarútvegsfræði við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri.

Af hverju valdir þú þetta nám ?

Ég valdi þetta nám vegna þess hversu fjölbreytt það er, en námið samanstendur af námskeiðum í sjávarútvegi, viðskiptum og raunvísindum.

Hvers vegna valdir þú HA ?

Ég valdi HA fyrst og fremst út af sjávarútvegsfræðinni en Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á landinu sem kennir þessa námsleið. Það sem skiptir þó mestu máli þegar á heildina er litið er að háskólinn hefur gott orðspor fyrir að vera skóli með sterka tengingu við atvinnulífið og þekktur fyrir að vera með einstaklega góðan stuðning við nemendur, persónulegt námsumhverfi og góða tengingu við kennara sem gerir námið persónulegra. 

Hvernig finnst þér háskólalífið á Akureyri ?

Háskólalífið á Akureyri er einstaklega gott. Nemendur þekkjast vel sem gerir það að verkum að góð samheldni myndast á meðal nemenda. Stúdentafélögin og skólinn bjóða upp á ýmis námskeið og allskonar skemmtilega viðburði sem gera háskólalífið skemmtilegra. 

Hvað ber framtíðin í skauti sér að loknu námi ?

Hún er algjörlega óráðin en draumurinn er að fá vinnu sem tengist náminu með einhverjum hætti. 

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór ?

Ég myndi nú segja að það væri óráðið en námið er búið að opna á svo margt og veita mér innsýn í fjölbreytta hluti sem ég þekkti lítið áður. Sjávarútvegurinn er fjölbreytt atvinnugrein og í mikilli þróun sem ég hlakka til að taka þátt í og vinna við í framtíðinni.

Hvaða ráð myndir þú gefa nýnemum sem eru að hefja nám við háskólann ?

Það er stórt skref að byrja í háskólanámi en það er líka byrjun á nýju ævintýri sem getur bæði verið spennandi og skemmtilegt en líka yfirþyrmandi. Ég myndi ráðleggja öllum nemendum að mæta í skólann og taka þátt í tímum. Að mínu mati eru afleiðingar covid enn að hafa áhrif og nemendur eru ekki að skila sér í tímana. Það verður til þess að litlar umræður skapast í tímunum og erfiðara er að mynda tengsl við aðra nemendur. En það getur verið ómetanlegt að mynda tengsl við samnemendur sína til þess að fá stuðning í náminu, deila hugmyndum, læra saman eða jafnvel eignast nýja vini.

Hvað gerir háskólann sérstakan að þínu mati ?

Háskólinn á Akureyri er sérstakur fyrir margra hluta sakir. Blanda af sérhæfingu, persónulegu námsumhverfi og fallegu umhverfi skapar einstaka reynslu fyrir nemendur. Skólinn býður upp á sérhæfðar námsleiðir, sem tengjast vel atvinnulífi á Norðurlandi. Sem gerir það að verkum að nemendur fá tækifæri til að tengja nám sitt beint við raunveruleg verkefni og störf.

Skólinn leggur einnig mikið upp úr nýsköpun og frumkvöðlastarfi, þar sem nemendur fá tækifæri til að þróa eigin hugmyndir. Samhliða því er menningarlífið og félagsstarfið öflugt, með ýmsum viðburðum sem gera lífið í háskólanum líflegt og skemmtilegt. 

Hvar er besti staðurinn til þess að læra ?

Besti staðurinn til að læra á er klárlega á Borgum, þar sem við í Auðlindadeildinni höfum góða aðstöðu. 


Hvernig er kaffið í HA?

Kaffið í HA er ágætt, en það er vissulega miklu betra á Borgum í kaffiaðstöðunni hjá Stafnbúa- hlutlaust mat 😊 

UMMÆLI