NTC

Listasafnið á Akureyri: Þriðjudagsfyrirlestur – Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir 

Listasafnið á Akureyri: Þriðjudagsfyrirlestur – Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir 

Þriðjudaginn 15. október kl. 17-17.40 heldur sellóleikarinn Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir Þriðjudagsfyrirlestur undir yfirskriftinni ListaÉg. Í fyrirlestrinum mun hún spekúlera í listferli og listalífi. Hún mun grúska í tilurð, gjörðum og lífi einhvers konar listapersónu sem á heima í einhvers konar alvöru persónu. Aðgangur er ókeypis.

Steinunn Arnbjörg lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2000. Síðar lærði hún hjá Michel Strauss við Konservatoríið í Boulogne-Billancourt og barokksellóleik hjá Christophe Coin og Bruno Cocset við Parísarkonservatoríið, CNSM de Paris. Þaðan útskrifaðist hún með láði og Mastersgráðu í barokksellóleik vorið 2006. Steinunn lék á árunum 2006-2020 með mörgum af helstu barokkhópum Frakklands og leikur nú með íslensku barokk- og nútímatónlistarhópunum Nordic Affect, Barokkbandinu Brák og Alþjóðlegu barokksveitinniHún er leiðandi sellóleikari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands síðan í maí 2022.


Steinunn er stofnandi fransk-íslenska barokkhópsins Corpo di Strumenti sem hefur víða komið fram. Hópurinn á sér annað sjálf sem gengur undir nafninu SÜSSER TROST og leikur tilraunakenndar útsetningar rokklaga og eigin lagasmíðar. Steinunn er einnig meðlimur í þjóðlaga-usla-sveitinni Gadus Morhua Ensemble. Hún er jafnframt skáld, tónskáld og lagasmiður og hefur gefið út fjórar ljóðabækur auk útgáfu á eigin lögum og ljóðum. Steinunn hefur m.a. samið tónlist fyrir Nordic Affect og kammerhóp Tónlistarfélags Akureyar, Sigrúnu Mögnu Þorsteinsdóttur og Brice Sailly, auk eigin hljómsveita og kammerhópa. Hún er forsprakki Tólf tóna kortérsins sem er tilraunasena fyrir tónlist og fer fram á Listasafninu á Akureyri. Frá stofnun tónleikaraðarinnar vorið 2020 hefur fjöldi nýrra tónsmíða litið þar dagsins ljós.


Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri og Gilfélagsins. Aðrir fyrirlesarar eru Yuliana Palacios, dansari, Loji Höskuldsson, myndlistarmaður, og Anna Richardsdóttir, gjörningalistakona.

VG

UMMÆLI

Sambíó