Nýr pizzastaður á AkureyriMyndir: Astro Pizza

Nýr pizzastaður á Akureyri

Síðustu ár hefur Magni Hjaltason ásamt góðu teymi gert gamalt bifvélaverkstæði að glænýjum pizzastað. Staðurinn ber nafnið Astro Pizza og mun opna við Glerárgötu 34, við hliðina á Krónunni.

Margir hafa verið forvitnir síðan að skiltið kom upp fyrir stuttu og segir Magni að oft í viku hafi fólk reynt að labba inn á staðinn. Staðurinn opnar hins vegar næstkomandi miðvikudag, þann 9. október. Aðspurður hvernig honum datt í hug að fara í veitingageirann sagði Magni: „það kemur bara út frá því að ég byrjaði að vinna á pizzastað þegar ég var 15 ára, þá fann ég bara mjög snemma að þetta væri umhverfi sem ég vildi vera í. Ég ákvað mjög snemma að einhvern tímann myndi ég opna minn eiginn stað og það er að gerast núna loksins.“ Magni segist einnig vera þakklátur fyrir alla þá reynslu sem hann hefur náð að sanka að sér á öðrum pizzastöðum í bænum. Hvað nafnið á staðnum varðar, þá kemur það frá bróðir Magna, Orra, en man hann ekki umræðuna sem átti sér stað þegar nafnið var fundið en hann segir að það hafi bara strax smollið.

Mynd: Astro Pizza

Þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára gamall hefur gengið frábærlega að þessu verkefni hjá Magna og þegar að við spurðum hvort að hann væri með einhverja menntun í þessu sagði hann: „ég byrjaði að stunda nám í rafvirkjun í VMA og vann við það í smá tíma, en annars þá hef ég bara frá ungum aldri fiktað mig áfram, prófað og spurt vitrari menn, einhvern veginn finnst alltaf lausn á endanum og þannig hef ég lært langmest, maður kann ýmislegt í dag en það er bara út af því að maður hætti aldrei að spá og spegúlera í hlutunum.”

Þegar að kom að því að mæla með pizzu af matseðli staðarins sagði Magni: „ég er mjög einfaldur þegar kemur að pizzum, gott deig og góð sósa er lykilinn af góðri pizzu og þá finnst mér áleggið ekki skipta mestu máli, en ég fæ mér bara pepperoni og skinku. Hinsvegar ætti „Venus“ að gleðja marga, vel hlaðinn af áleggjum og góð. Brauðstangirnar okkar hafa einnig fengið mjög skemmtileg viðbrögð svo við hlökkum til að leyfa fólki að smakka þær.“

Mynd: Astro Pizza
VG

UMMÆLI

Sambíó