Út er komin ljóðabókin Mörk eftir Stefán Þór Sæmundsson, skáld og íslenskukennara á Akureyri. Þetta er efnismikil ljóðabók og fjölbreytt að efni og formi en hryggjarstykkið í henni er ljóðabálkur sem nýst um sögu tungumálsins, ljóðsins og íslenskrar menningar og svo hvernig staðan er í dag. Tilvistarlegar spurningar kvikna líka í öðrum bálkum bókarinnar og í heild er hér um að ræða ágenga nálgun á íslenskt samfélag.
Síðustu útgefnu ljóðabækur Stefáns Þórs eru Upprisa 2019 og Mar 2020 en nýjasta verk hans er smásagnasafnið Grímur sem kom út 2022. Hann hefur alls komið nálægt útgáfu á 70-80 bókum, sem höfundur eða þýðandi. Þá starfaði hann lengi sem blaðamaður, gagnrýnandi og pistlahöfundur.
Stefán Þór yrkir bæði bundin og óbundin ljóð. Þannig er ljóðabálkurinn Ótímabær dauði málsins að mestu í óbundnu máli en brotinn upp með ýmsum bragarháttum enda snýst ljóðið um átök í tungumálinu og forminu. Annar bálkur fjallar um tónlist og fíkn og er rammbundinn í bragarhætti en síðasti hlutinn snýst um tilvistarkreppu unga fólksins í frjálsu formi. Fyrsti hlutinn inniheldur ýmis stök ljóð, flest snúast um land og þjóð og tilveruna og ýmsar ógnir en líka léttari málefni og þar eru orðin og tungumálið höfundi oft hugleikin.
Það er bókaútgáfan Tindur á Akureyri sem gefur bókina út og fæst hún í nokkrum helstu bókaverslunum. Þess má geta að Stefán mun, ásamt leynigestum, kynna bókina í Davíðshúsi fimmtudaginn 10. október næstkomandi.
Mynd: Stefán Þór með ljóðabókina Mörk
UMMÆLI