beint flug til Færeyja

Jenný Gunnarsdóttir ráðin verkefnastjóri Fjölmenntar hjá Símey

Jenný Gunnarsdóttir ráðin verkefnastjóri Fjölmenntar hjá Símey

Jenný Gunnarsdóttir hefur verið ráðin til starfa hjá SÍMEY sem verkefnastjóri Fjölmenntar og einnig hefur hún á sinni könnu skipulagningu nýs tilraunaverkefnis á landsvísu fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Jenný er uppalin á Dalvík en flutti á grunnskólaaldri til Akureyrar. Stúdentsprófi lauk hún frá MA. Að því loknu tók Jenný sér fjögurra ára hlé frá námi og fór út á vinnumarkaðinn, starfaði m.a. í ferðaþjónustu, á sambýlum og í skammtímavistun fyrir fólk með fötlun. Síðan lá leiðin til Lundar í Svíþjóð þar sem Jenný lærði kynjafræði og sálfræði til BA-prófs. Hélt að því loknu áfram námi í Lundi og lauk meistarapróf í stjórnun. Árið 2020 flutti hún aftur heim til Akureyrar og bætti við sig námi í menntunarfræðum til kennsluréttinda við HA og starfaði jafnframt við íbúakjarnann á Klettaborg. Síðustu árin hefur Jenný starfað sem kennari og við fræðslu hjá SÍMEY og Heilsu- og sálfræðiþjónustunni. Auk 50% stöðu í SÍMEY kennir hún ýmis fög á sviði félagsvísinda í afleysingum við Menntaskólann á Akureyri.

Jenný segir að áralöng reynsla sín í vinnu með fólki með fötlun nýtist sér afar vel í hinu nýja starfi í SÍMEY við skipulagningu og umsjón með námskeiðahaldi Fjölmenntar.

„Það á eftir að koma í ljós hversu margir nýta sér það sem við komum til með að bjóða upp á í vetur. Við bjóðum upp á ýmis námskeið sem áður hafa verið í boði eins og t.d. myndlist, tónlist og matreiðslu en einnig verða ýmsar nýjungar eins og t.d. námskeið í hreyfingu og jóga og ætlun okkar er að bjóða upp á fleiri nýjungar sem við munum kynna betur síðar,“ segir Jenný og bætir við að það sé afar gefandi að vinna með fólki með fötlun, það víkki sjóndeildarhringinn á ýmsan hátt.

Auk þess að hafa með höndum verkefnastjórn Fjölmenntar í SÍMEY heldur Jenný utan um nýtt þróunarverkefni á landsvísu, sem er samstarfsverkefni Fjölmenntar, Vinnumálastofnunar og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Verkefnið hefur það að markmiði að styrkja stöðu fólks sem hefur skerta starfshæfni með fræðslu og vinnuþjálfun. Í verkefninu taka þátt símenntunarmiðstöðvar um allt land og munu þær starfrækja smiðjur í því skyni að efla þátttöku fólks á atvinnumarkaði. Á næstu dögum mun SÍMEY ýta slíkri smiðju úr vör með tæplega tug þátttakenda, sem verður starfrækt fram í byrjun desember. Bæði verður um að ræða fræðslu af ýmsum toga, t.d. varðandi almenna starfshæfni, vinnustaðamenningu, sjálfseflingu, samskipti, tímastjórnun og verkdagbækur, og 110 vinnustunda starfsþjálfun á vinnustöðum, t.d. í lagervinnu, vinnu við þrif og ræstingu, umönnun og ferðaþjónustu.

UMMÆLI

Sambíó