Uppfært 2. október klukkan 16:10: Samkvæmt tilkynningu Landsnets klukkan 14:09 er truflun lokið og rafmagn komið aftur á. Uppfærða frétt Kaffisins um málið má lesa með því að smella hér. Frétt hér að neðan inniheldur úreltar upplýsingar.
Margir Akureyringar og nærsveitungar urðu varir við rafmagnstruflanir og jafnvel rafmagnsleysi skömmu eftir hádegi í dag. Vandinn takmarkaðist þó ekki við Akureyri heldur hafa fregnir borst af rafmagnsleysi og truflunum nær alls staðar af norðanverðu landinu á síðustu tveim klukkutímum. Greining vandans tók smá stund en rafmagn er víða komið aftur á.
Klukkan 12:25 í dag birti Landsnet eftirfarandi tilkynningu: „Norðurál leysir út álag og stór truflun varð á flutningskerfi LN, unnið er að greiningu. Rafmagnslaust er víða.“ RÚV greindi seinna frá að rafmagn hafi slegið út vegna viðhaldsvinnu hjá Norðuráli, með þeim áhrifum að dreifikerfi Landsnets sló út.
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, sagði í samtali við RÚV að dálítill tími hafi farið í að greina truflunina en að Landsnet hafi nú yfirsýn yfir stöðuna og séu byrjuð að bygja kerfið upp á ný. Hún bætti við: „Rafmagn er að detta inn á einum og einum stað, og ég vona að það sé ekki um langt að bíða þar til það verður komið á víðast hvar.“
Þegar þessi frétt er skrifuð eru Húsavík og nærsveitir hennar eina svæðið þar sem endurheimting rafmagns að fullu hefur verið staðfest af Landsneti, en yfirlýsing þess efnis birtist klukkan 13:24 í dag. Miðað við yfirlýsingar Landsnets mætti búast við álíka yfirlýsingum frá öðrum svæðum á næstu klukkutímum.
Hægt er að fylgjast með gangi mála á tilkynningasíðu Landsnets með því að smella hér.
UMMÆLI