Samherji gefur út yfirlýsingu í máli gegn Oddi Eysteini

Samherji gefur út yfirlýsingu í máli gegn Oddi Eysteini

Fyrr í vikunni greindi erlendi miðillinn Guardian frá málflutningi í Bretlandi í máli Samherja gegn Oddi Eysteini Friðrikssyni.

Oddur gengur undir listamannsnafninu Odee og framkvæmdi gjörning, að hans sögn, í fyrrasumar þar sem hann opnaði vefsíðu með léninu samherji.co.uk. Á vefsíðunni gaf hann út yfirlýsinguna „Samherji biðst afsökunar, lofar bótum og samvinnu með yfirvöldum“ (e. „Samherji Apologizes, Pledges Restitution and Cooperation with Authorities”). Þarna vísar Oddur til Namibíumálsins þar sem fyrirtækið var ásakað um að múta ráðamönnum innan Namibíu. Samherji leitaði til dómstóla vegna málsins en Oddur hafnaði sáttaboði Samherja í málinu.

Í dag gaf Samherji út yfirlýsingu varðandi málið sem má lesa í heild sinni hér að neðan

Í vikunni fór fram málflutningur í Bretlandi í máli Samherja gegn Oddi Eysteini Friðrikssyni vegna þess að hann hafði vilt á sér heimildir og notað til þess hugverk í eigu Samherja.

Í maí á síðasta ári setti Oddur Eysteinn upp heimasíðu sem var vistuð í Bretlandi, í nafni og með myndmerki Samherja og dreifði fölskum fréttum í nafni félagsins‏‏.

Skömmu síðar lýsti Oddur Eysteinn verkinu á hendur sér og sagði það hluta af listgjörningi.

Misnotkunin á vörumerki Samherja náði til þriggja heimsálfa. Tilkynningar voru sendar til um 100 fjölmiðla á Íslandi, Noregi, Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Ástralíu.

Öllum má ljóst vera að þegar Oddur Eysteinn opnaði vefsíðu með léninu -samherji.co.uk- sem var eftirlíking af opinberri síðu Samherja, olli slíkt ruglingshættu bæði hjá almenningi og viðskiptavinum.

Þá er rétt að greina frá því að í þessari misnotkun fólst ekki einungis listrænn tilgangur eins og höfundur heldur fram, því auk þess var reynt að hafa fé af Samherja með því að fela auglýsingastofu birtingu á auglýsingaefni af sama tagi gegn greiðslu frá Samherja.

Við slíkt er að sjálfsögðu ekki hægt að una og hefur ekkert með list eða tjáningarfrelsi að gera. Vörumerki Samherja hefur verið byggt upp á liðlega fjórum áratugum um allan heim og skylda félagsins er að verja lögbundið vörumerki félagsins.

Samherji átti fárra kosta völ en að leita til dómstóla, sem eru hinn hefðbundni vettvangur til úrlausna deilumála. Samherji hafði engan áhuga á að höfða ofangreint mál gegn Oddi Eysteini umfram það að fá hann til að leiðrétta vísvitandi brot sín og bauð honum að ljúka málinu utan dómstóla með því að afhenda Samherja lénið og gangast við því að endurtaka ekki brot sín. Oddur hefur kosið að hafna því og taka til varnar í málinu.

Samherji styður stjórnarskrárvarið tjáningarfrelsi listamanna og annarra og tekur enga afstöðu með eða á móti listaverkum einstakra aðila en hér var um að ræða víðtækt alvarlegt brot sem ekki var hægt að réttlæta með vísunum til listrænnar tjáningar.

Samherji hvetur til listrænna sköpunar og hefur haft það að samfélagslegu markmiði að styðja við listamenn í gegnum árin. Hvetur Samherji Odd Eysteinn til frekari verka en um leið að virða réttindi og störf annarra samborgara sinna samhliða listsköpun sinni.

Sambíó

UMMÆLI