Sérfræðingur í heimilislækningum ráðinn á geðdeild SAk

Sérfræðingur í heimilislækningum ráðinn á geðdeild SAk

Fjóla Björnsdóttir, sérfræðingur í heimilislækningum, hefur verið ráðin í 75% stöðu við geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri frá og með 1. október 2024. Þetta kemur fram á vef Sjúkrahússins á Akureyri.

Fjóla hlaut sérfræðiréttindi til heimilislækninga árið 2015. Hún vann sem kandidat og deildarlæknir við Landspítala háskólasjúkrahús 2001-2003, sem héraðslæknir við Heilbrigðisstofnun Austurlands 2003-2006, deildarlæknir og sérnámslæknir á taugadeild við Sahlgrenska Sjukhuset Gautaborg 2006-2007 og læknir og sérnámslæknir við heilsugæslustöðina á Dalvík – Heilbrigðisstofnun Norðurlands á árunum 2009-2015.

Fjóla hefur unnið sem sérfræðingur í heimilislækningum á Dalvík og nú síðustu ár hefur hún unnið sem sérfræðingur á endurhæfinga- og öldrunardeild SAk í Kristnesi.

Fjóla mun fyrst og fremst vinna sem sérfræðingur við hlið geðlækna deildarinnar. Hún mun auk læknisstarfa taka þátt í uppbyggingu þverfaglegra teymisvinnu og þróun þjónustunnar.

„Við á geðsviði erum afar ánægð með að fá Fjólu til okkar svo hægt verði að þjónustu okkar skjólstæðingshóp enn betur samhliða því að halda áfram þeirri uppbyggingu sem þegar er hafin. Fjóla hefur víðtæka reynslu bæði úr námi og starfi og erum við mjög spennt að fá hennar sýn á það hvernig hægt er að bæta og styrkja þjónustuna enn frekar hér hjá okkur,” segir Ragnheiður Reykjalín Magnúsdóttir deildarstjóri á dag- og göngudeild geðdeildar á vef SAk.

Um geðsvið SAk:

Geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri gegnir mikilvægu hlutverki í þjónustu við fullorðna einstaklinga sem glíma við geðraskanir á Norður- og Austurlandi og sinnir legudeildar-, dagdeildar- og göngudeildarþjónustu. Auk þess gegnir deildin lykilhlutverki í samvinnu þjónustukerfa sem koma að þjónustu við fólk með geðrænan vanda.

Tengill á nánari upplýsingar um geðheilbrigði á vefsíðu SAk hér.

VG

UMMÆLI

Sambíó