NTC

Hermenn léku á munnhörpu í Hlíðarfjalli

Hermenn léku á munnhörpu í Hlíðarfjalli

Amerísk munnharpa frá stríðsárunum fannst nýlega á æfingasvæði norskra, breskra og bandarískra hermanna í Hlíðarfjalli. Munnharpan er af gerðinni All American, framleidd af Harmonic Reed Corporation í Fíladelfíu í Pennsylvaníu-ríki. Einkaleyfi fékkst fyrir þessari tilraunkenndu gerð af munnhörpu árið 1934. Blómatíð All American-munnhörpunnar var á árum seinni heimsstyrjaldar og telst hún til fágætra gripa nú til dags.

Munnharpan er úr svörtu bakelít, með 10 holum og áföstum plötum beggja megin, merktum stjörnum og bókstöfum í rauðum og bláum lit. Plöturnar eru máðar eftir áratuga dvöl í fjallinu. Á þeim má greina merkingarnar „ALL AMERICAN MADE BY HARMONIC REED CORP. PHILA. PA U.S.A.“ og  „PATENT NUMBERS 19.299 and 92.285 AND PATENTS PENDING“.

Leiða má líkur að því að munnharpan sé úr fórum amerískra hermanna sem dvöldust í fjallinu á stríðsárunum. Þeir þjálfuðu vetrarhernað í hlíðum fjallsins undir leiðsögn norskrar skíðaherdeildar sem hélt til á Hrappstöðum í Kræklingahlíð. Ferðir skíðaherdeilda, munnharpan og margt fleira verður á dagskrá í væntanlegum hlaðvarpsþætti af Sagnalist með Adda & Binna.

Heimild: Grenndargralið

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó