Framsókn

Skólameistari MA skrifar bréf til foreldraMynd/MA

Skólameistari MA skrifar bréf til foreldra

Karl Frímannsson skrifaði bréf til foreldra/forsjáaðila nemanda Menntaskólans á Akureyri þar sem hann brýnir fyrir því að koma í veg fyrir ofbeldi og ofbeldistengd samskipti. Nemendur skólans mættu einnig í bleikum fatnaði í dag, gegn ofbeldi, líkt og aðrir framhaldsskólanemar. Bréfið má lesa í heild sinni hér að neðan:

Kæru foreldrar/forsjáraðilar

Vopnaburður og ofbeldi meðal barna og ungmenna hefur farið vaxandi samkvæmt gögnum lögreglunnar. Alvarleg atvik að undanförnu hafa vakið ugg og ótta meðal landsmanna og mikilvægt að bregðast við þeirri óheillaþróun.

Mikilvægt er að við öll sem að skólasamfélaginu stöndum gerum allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir ofbeldi og ofbeldistengd samskipti. Menntaskólinn á Akureyri hvetur til þess að bæði í skólanum sem og á heimilunum verði rætt við og með börnum og ungmennum um að efla hið góða í samskiptum, leita skilnings frekar en að dæma og halda því fram sem er farsælt, rétt og gott.

Ákveðnir þættir eru verndandi gegn áhættuhegðun barna svo sem samvera foreldra og barna, að útivistartími sé virtur, fylgst sé með netnotkun þeirra, að börnum sé sýnd umhyggja, þeim séu sett skýr mörk og að forráðafólk þekki vini barna sinna og foreldra þeirra. Jafnframt felst mikið forvarnargildi í þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Einnig hefur forvarnagildi að nemendur finni að þeir tilheyri því skólasamfélagi sem þeir starfa í, finnist þeir velkomnir þangað og að við sem störfum í skólanum sýnum þeim tiltrú og hvatningu. Uppbyggileg samskipti og alúðarfesta skapar börnum okkar frjóasta jarðveginn að vaxa úr.

Menntaskólinn á Akureyri áréttar að vopnaburður á almannafæri er lögum samkvæmt bannaður. Ef nemandi verður uppvís að því að bera vopn verður málið undantekningalaust tilkynnt til lögreglu og eftir atvikum barnaverndar og forráðafólks. Ofbeldismál sem upp kunna að koma innan skólans eða á viðburðum á hans vegum verða unnin eftir viðbragðsáætlun sem finna má á heimasíðu skólans sem við hvetjum forráðafólk og nemendur til að kynna sér. Þá er vakin athygli á því að nemendur og foreldrar geta leitað stuðnings og ráðgjafar innan skólans svo sem hjá stoðteymi, umsjónarkennurum og stjórnendum. Þá bendum við á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall á www.1717.is og á www.112.is.

Minnt er á að á öllum hvílir tilkynningarskylda til barnaverndar ef ástæða er til að ætla að barn verði fyrir ofbeldi, vanrækslu eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og annarra í hættu.

Í sameiningu getum við stuðlað að jákvæðum skólabrag, öruggara samfélagi og aukinni farsæld með því að vera góðar fyrirmyndir, hafa trú á börnum og ungmennum og hvetja þau til góðra verka.

Virðingarfyllst,

Karl Frímannsson

skólameistari

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó