Vel heppnaðri Akureyrarvöku, afmælishátíð Akureyrarbæjar, er nú lokið. Hápunktur helgarinnar voru magnaðir stórtónleikar á Ráðhústorgi þar sem einvala lið tónlistarmanna steig á stokk. Vel var mætt á tónleikana, og fór allt vel fram.
Þrátt fyrir að það hafi blásið vel var hlýtt í veðri, og góð mæting var á fjölbreytta viðburði sem fóru fram vítt og breitt um bæinn. Hátíðin var formlega sett í Lystigarðinum á föstudagskvöldinu með opnunarhátíðinni Rökkurró, en í þéttskipaðri dagskrá mátti einnig finna Draugaslóð, tónleikaröðina Mysing, götukörfuboltamót, Pálínuboð í Fálkafelli, Víkingahátíð, Acra jóga fjör, Skáta- og slökkviliðsviðburð, Taekwondo sýningu og Fornbílasýningu í Listagilinu, svo eitthvað sem nefnt.
Líf og fjör var einnig í Menningarhúsinu Hofi alla helgina sem lauk með Ljóðadjass þar sem íslenski rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson og danska tónskáldið Dorthe Höjland komu saman.
Á vef Akureyrarbæjar má sjá myndir sem þau Hilmar Friðjónsson og Aníta Eldjárn tóku. Smellið hér til að sjá myndirnar.
UMMÆLI