NTC

Ríkið eignast 85 prósent hlut í HlíðMynd: Akureyri.is

Ríkið eignast 85 prósent hlut í Hlíð

Ríkið hefur yfirtekið 85 prósent eignarhlut í Austurbyggð 17 á móti 15 prósent eignarhlut Akureyrarbæjar. Fasteignin hefur alltaf verið í 100% eigu Akureyrarbæjar. Með fjármögnun ríkissjóðs á framkvæmdum á eigninni fyrir allt að 1.250 milljónir króna hefur ríkið náð að yfirtaka sinn hlut.

12. júlí síðastliðinn var undirritaður samningur þar sem kemur fram að framkvæmdir á hjúkrunarheimilinu skal vera lokið innan 18 mánaða. Ef ekki tekst að ljúka verki samkvæmt áætlun Framkvæmdasýslunnar framlengist sá tími um 6 mánuði. Eftir þann tíma skal kostnaður vegna viðgerða og endurbóta á eigninni skiptast í samræmi við eignarhluti eiganda.

Í fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ er haft eftir Ásthildi Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar:

„Við hjá Akureyrarbæ höfum þrýst á ríkisvaldið að greiða úr því ófremdarástandi sem hefur skapast vegna skemmda á húsnæði Hlíðar. Frá upphafi var gengið út frá því að eignarhlutur bæjarins yrði framlag hans til viðgerðanna en því miður hefur dregist úr hömlu að ganga frá þessu samkomulagi. Frá því við skiluðum rekstrinum aftur til ríkisins snemma árs 2021, hefur engin leiga verið greidd til Akureyrarbæjar fyrir afnot af 10.000 fermetra húsnæði. Það er auðvitað ekki ásættanlegt og því var lendingin sú að ríkið eignast 85% af fasteignunum gegn því að ráðast strax í nauðsynlegar endurbætur og fjármagna þær.

Ég vona innilega að í framhaldinu komist skikk á húsnæðismál hjúkrunarheimila á Akureyri og við hjá Akureyrarbæ gerum hér eftir sem hingað til allt sem í okkar valdi stendur til þess að svo megi verða, höfum meðal annars tilbúnar lóðir fyrir hjúkrunarheimili og aðra skylda starfsemi bæði í Vestursíðu og Þursaholti. Framhald mála er alfarið á ábyrgð og í höndum ríkisins.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó