Knattspyrnumaðurinn Aron Einar Gunnarsson er kominn heim í Þór og hann spilaði sinn fyrsta leik á Íslandi síðan 2006 þegar hann kom inn á í leik Þórsara gegn Njarðvík í Lengjudeildinni um helgina.
Aron kom inn á á 67. mínutu leiksins þegar staðan var 2-0 fyrir Njarðvík. Aron hafði sannarlega góð áhrif á Þórsliðið og leiknum lauk með jafntefli 2-2.
„Það sýnir hvað alvöru karakter getur smitað trú inn í liðið. Nákvæmlega það sem liðinu hefur vantað lengi, týpur sem ná að smita einhverja orku í samherjana. Leikurinn umturnast síðustu tuttugu mínúturnar,“ sagði Sigurður Höskuldsson, þjálfari Þórsara, í viðtali við Fótbolti.net eftir leikinn.
„Gott að geta hjálpað liðinu að ná í þetta stig því mér fannst við eiga það skilið miðað við færin sem við fengum í þessum leik þá áttum við klárlega stigið skilið,“ sagði Aron Einar sjálfur í viðtali við Fótbolti.net eftir leikinn.
Næsti leikur Þórsliðsins er á miðvikudag við Grindavík í Reykjavík.
UMMÆLI