Aron Einar Gunnarsson hefur skrifað undir samning við Þór sem gildir til tveggja ára. Þetta staðfesti félagið á blaðamannafundi í Þórsheimilinu Hamri rétt í þessu.
Þessar fréttir koma fáum sem fylgst hafa með ferli Arons á óvart, en hann hefur áður lýst því yfir að hann vilji ólmur spila fyrir uppeldisfélagið á ný áður en ferill hans líður undir lok. Aðspurður um aðdraganda samningsins við Þór segir Aron: „Þetta hefur alltaf verið planið … planið var alltaf að enda ferilinn hér.“
Fyrir blaðamannafundinn var mikið til umræðu í fjölmiðlum hvort að Aron yrði leigður til erlends félags í sumar og sagði til að mynda í frétt frá 433.is að samkvæmt heimildum þeirra væru yfirgnæfandi líkur á því. Ekki liggur fyrir hvort að svo verði. Aðspurður segir Aron sjálfur: „Við höfum talað um ‚option‘ að fara á lán. Fyrst og fremst er ég kominn hérna til þess að koma mér í gang, spila með Þórsurum og svo verður samtalið tekið varðandi það að ég fari á lán þegar að glugginn er að loka úti en það er ekkert staðfest eða ráðið við það.“
Sá gluggi lokast þann 9. september næstkomandi. Þór mun spila sex leiki fram að því og má búast við að sjá Aron spila í a.m.k. einhverjum af þeim leikjum. Þar að auki segir hann það vera planið eins og er að spila fyrir Þór næsta sumar.
Mikil gleði var yfir Þórsheimilinu Hamri á meðan á fundinum stóð og greinilegt að stuðningsmenn Þórs væru hæstánægðir með að fá Aron heim. Sjálfur segist Aron himinlifandi yfir því að vera kominn heim: „Ég get sagt þér það að ég fékk gæsahúð þegar ég var að keyra hérna uppeftir áðan … Ég er mjög stoltur og ánægður að vera kominn heim.“
UMMÆLI