Dagurinn í dag er síðasti dagurinn sem Eyjólfur Guðmundsson starfar sem rektor Háskólans á Akureyri. Hann hefur sinnt starfinu síðastliðin tíu ár en eftir helgina tekur Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir við sem nýr rektor. Háskólinn gaf frá sér eftirfarandi tilkynningu á Facebook síðu sinni:
Dagurinn í dag markar ákveðin kaflaskil í sögu Háskólans á Akureyri en í dag er síðasti dagur Eyjólfs Guðmundssonar í embætti rektors!
Eyjólfur hefur gengt embættinu í áratug og á þeim tíma hefur HA vaxið hratt og þroskast. HA-ingar hafa á þessum tíu árum klifið ófá fjöll ásamt því að hafa fagnað mikilvægum sigrum, stórum og smáum.
Eyjólfur horfði yfir farinn veg á Háskólahátíð 2024 og sagði m.a. „Við höfum ekki aðeins stækkað og styrkt skólann okkar, heldur höfum við einnig stuðlað að mikilvægu framlagi til íslensks samfélags. Þessi tímamót í sögu okkar bera vitni um samstöðu, metnað og ástríðu allra þeirra sem hafa lagt sitt af mörkum til að gera Háskólann á Akureyri að því sem hann er í dag.“
„Ég þakka fyrir samstarfið á liðnum áratug og beini því til starfsfólks og stúdenta háskólans að vera hugrökk og takast á við framtíðina með bjartsýni að leiðarljósi,“ segir Eyjólfur.
UMMÆLI