Framsókn

Marika Alavere hlýtur Menningarverðlaun Þingeyjarsveitar

Marika Alavere hlýtur Menningarverðlaun Þingeyjarsveitar

Menningarverðlaun Þingeyjarsveitar 2024 voru afhent á Fjölskylduhátíð Þingeyjarsveitar í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins þann 17. júní á Laugum. Verðlaunin voru fyrst veitt í nýsameinuðu sveitarfélagi árið 2023 og var fyrsti handhafi þeirra Rósa Emilía Sigurjónsdóttir.

Menningarverðlaun Þingeyjarsveitar eru veitt árlega þeim einstaklingum, hópi eða félagasamtökum, sem þykir standa sig afburðavel í að efla menningarstarf í sveitarfélaginu. Auglýst var eftir tilnefningum til verðlaunanna og bárust ellefu tilnefningar í ár. Það var því úr vöndu að ráða fyrir íþrótta-, tómstunda- og menningarnefnd sveitarfélagsins, enda þeir sem tilnefndir voru, að mati nefndarinnar, allir vel þess verðugir að hljóta verðlaunin. Það að vera tilnefndur er mikill heiður og sönnun þess að það sem viðkomandi einstaklingar eru að fást við skiptir aðra máli.

Marika Alavere er handhafi menningarverðlauna Þingeyjarsveitar árið 2024.

Í tilnefningu Mariku segir meðal annars; „Marika er ein margra tónlistarkennara af erlendum uppruna , sem starfað hafa í samfélagi okkar í gegnum tíðina. Sum hafa stoppað stutt, en önnur ílengst eins og hún og skotið hér rótum. Marika hefur árum saman lagt sitt af mörkum til tónlistarkennslu, tónlistarflutnings og aðstoð við kórstjórn. Þannig hefur hún lagt inn mikilvæga vaxtarsprota meðal ungmenna og átt sinn þátt í menningarlífi sveitarfélagsins og víðar.

Tilnefning Mariku er sett fram sem þakklætisvottur til hennar, sem fulltrúa þeirra erlendu tónlistarkennara, er lagt hafa mikið af mörkum til þingeysks tónlistarlífs og eiga svo ríkulegan þátt í því blómlega tónlistar- og menningarlífi, sem glatt hefur bæði lund og geð íbúa samfélags okkar í gegnum tíðina“.

Ragnheiður Jóna sveitarstjóri afhenti Mariku verðlaunin í sól og blíðu á Íþróttavellinum á Laugum. 

Víða í sveitum landsins leynist fólk sem er snillingar í sínu fagi – að miðla tónlist til barna jafnt sem fullorðinna. Við Þingeyingar höfum löngum haft á að skipa frábæru tónlistarfólki og á seinni árum hefur menntuðu tónlistarfólki í samfélaginu fjölgað jafnt og þétt, innlendu sem erlendu. Það er mikil gæfa fyrir hvert samfélag að hafa á að skipa öflugu tónlistarfólki.

Marika útskrifaðist árið 1994, sem fiðlukennari og fiðluleikari í hljómsveit frá Heino Eller Music School of Tartu, framhaldsskóla sem sérhæfði sig tónlist. Hún gekk síðan í háskóla Estonian Music Academy í fjögur ár, eða þangað til hún flutti til Íslands, ásamt eiginmanni sínum Jaan og litlum laumufarþega sem leit dagsins ljós nokkrum mánuðum síðar. Upphafleg áætlun þeirra hjóna var að að svala ævintýraþrá sinni með því að kenna hér norður undir heimskautsbaug í tvö ár.

Þau Marika og Jaan störfuðu sem tónlistarkennararar í Stórutjarnaskóla, en frá haustinu 2010 hefur Marika verið deildarstjóri tónlistardeildarinnar. Þau hjónin voru bæði virkir þátttakendur í tónlistar- og menningarlífi Norðlendinga, en Jaan lést sem kunnugt er langt um aldur fram árið 2020. Marika hefur verið meðlimur Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands frá því hún flutti hingað og lék á fyrstu tónleikum með hljómsveitinni rúmum tveimur vikum eftir komuna til landsins.

Kæra Marika. Tilnefning þín er verðskulduð og sett fram sem þakklætisvottur frá íbúum samfélagsins. Árin tvö sem þú ætlaðir að vera á Íslandi eru orðin 25 og á þeim tíma hefur þú lagt mikið að mörkum til samfélagsins í okkar þágu. Þú ert verðugur fulltrúi þerra erlendu tónlistarkennara, sem flutt hafa til landsins og kynnt okkur framandi stefnur og strauma frá heimkynnum sínum. Sporin sem þið skiljið eftir ykkur í þingeysku menningarlífi eru djúp og víst er að áhrifa ykkar mun áfram gæta um ókomna tíð. Hafðu þökk fyrir allt.“ sagði Ragnheiður Jóna við tilefnið.

Eftirtaldir voru einnig tilnefndir til Menningarverðlauna Þingeyjarsveitar 2024, tilvitnun í ástæður og/eða rökstuðning fylgir einnig með.  

Leikdeild Eflingar „fyrir mikilvægt samfélagslegt menningarstarf í gegnum tíðina.“ 

Freydís Anna Arngrímsdóttir „fyrir óeigingjarnt starf í þágu Leikdeildar Eflingar í gegnum árin.“

Ragnar og Ásdís í Seli; „Eigendur Sel Hótel Mývatn eiga sannarlega hrós skilið fyrir það sem þau skila til baka í samfélagið og þau eru mikilvægir bakhjarlar fyrir menningar-, íþrótta- og góðgerðastarf í sveitinni. Alltaf boðin og búin að leggja sitt að mörkum. Árlega standa þau fyrir viðburðinum Vordægur, fyrir eldri borgara víðs vegar að af landinu og eru dugleg við að hvetja eldri borgara í sveitarfélaginu að taka þátt. Þá hafa þau alltaf tekið þátt í Vetrarhátíð í Mývatnssveit í einhverri mynd.“

Guðfinna Sverrisdóttir var tilnefnd fyrir Persónulega safnið „þar sem komið er fyrir munum sem hafa sögu, ekki bara sögu fjölskyldunnar, heldur líka muni eftir alþýðulistamenn sveitarinnar.“

Karlakórinn Hreimur var tilnefndur fyrir metnaðarfullt menningarstarf; „Hreimur hefur verið einn af mörgum hornsteinum í menningarlífi sveitarinnar í tónlist og öðrum viðburðum um áratuga skeið, en kórinn hefur starfað óslitið síðan 1975. Meðlimir kórsins eru á öllum aldri, úr bæði Norður og Suður- Þingeyjarsýslum og Akureyri.

Hreimsmenn hafa staðið fyrir svokölluðum Vorfögnuði ár hvert, viðburði sem er ávallt afar vel sóttur og reynt hefur verið að fara í tónleikaferð suður árlega. Þar sýna þeir hvað í Þingeyingum býr, með góðri kynningu og sögum á tónleikum. Kynna fyrir fólki á Suðurlandi að það er líf í Þingeyjarsveit.“

Söngfélagið Sálubót; „Sálubót hefur í gegnum tíðina komið fram á fjölmörgum menningarviðburðum, auk hefðbundins kórastarfs. Það gera kórfélagar ásamt stjórnanda sínum með bros á vör, enda hefur það verið stefna kórsins frá upphafi að setja ekkert upp fyrir slíkar samkomur.

Síðasta starfsár var sérlega viðburðaríkt hjá Sálubót, þar sem auk árlegra tónleika tók kórinn þátt í Músík í Mývatnssveit, sem er metnaðarfull tónlistarhátíð og var þar í einu af aðalhlutverkum hátíðarinnar. Einnig söng kórinn á minningartónleikum um ástsælan fyrrum söngstjóra kórsins, Jaan Alavere, sem ekkja hans Marika Alavere stóð fyrir. Þar var öllu tjaldað til og Sálubót í stóru hlutverki.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó