Frítt á leik Þórs/KA og Breiðabliks í dag

Frítt á leik Þórs/KA og Breiðabliks í dag

Þór/KA tekur á móti liði Breiðabliks í uppgjöri tveggja efstu liða Bestu deildarinnar á VÍS-vellinum laugardaginn 8. júní kl. 16:15. Frítt er á leikinn!

Leikurinn er í 7. umferð Bestu deildarinnar og verður fyrsti leikur liðsins á grasinu. Þrír fyrstu heimaleikirnir þetta vorið hafa farið fram í Boganum. Þrátt fyrir vetrarveðrið núna í vikunni og slæmt ástand vallarins fékkst ekki leyfi til að færa leikinn inn í Bogann. Leikurinn verður því á VÍS-vellinum og verkefnið einfaldlega að klæða sig vel, fylla stúkuna og styðja stelpurnar til sigurs. Veðurstofan spáir þremur stigum.

Leikurinn er toppslagur í Bestu deildinni eins og áður sagði. Breiðablik er í efsta sætinu, hefur unnið alla leiki sína til þessa og er með 18 stig. Þór/KA og Valur eru jöfn með 15 stig, bæði með fimm sigra og eitt tap í fyrstu sex umferðunum, en Þór/KA með betri markamun.

Þór/KA og Breiðablik mættust þrisvar í Bestu deildinni í fyrra og unnust allir leikirnir á heimavelli. Þór/KA vann frábæran 2-0 sigur í Boganum 15. maí þar sem Hulda Ósk Jónsdóttir og Sandra María Jessen sáu um að skora mörkin. Breiðablik vann svo 4-2 sigur á Kópavogsvelli á frídegi verslunarmanna, þar sem Sandra María Jessen og Bríet Jóhannsdóttir skoruðu fyrir okkar lið. Þriðja viðureignin var síðan í efri hluta Bestu deildarinnar og fór fram á VÍS-vellinum (Þórsvelli) 13. september. Þór/KA vann þann leik 3-2 með mörkum frá Karen Maríu Sigurgeirsdóttur, Söndru Maríu Jessen og Unu Móeiði Hlynsdóttur.

Upphitun verður í Hamri og á pallinum fyrir leik, hamborgarar á grillinu og þjálfaraspjall í sófanum kl. 15:30. 

Nánar á thorka.is.

Netsprengja NTC

Frétt: thorsport.is Mynd með frétt: Þórir Tryggvason

Sambíó

UMMÆLI