Framsókn

Nýja harpan mætt í Hof

Nýja harpan mætt í Hof

Í tilefni að 30 ára afmæli Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands gáfu Akureyrarbær, Menningar- og viðskiptaráðuneytið og KEA Menningarfélagi Akureyrar fjármagn upp í kaup á hörpu. Nú er harpan mætt í Hof en Tónlistarskóli á Akureyri mun einnig nýta hörpuna í kennslu hjá sér.

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarstjóri segir hörpuna oft afar mikilvægt hljóðfæri í sinfónískri tónlist. „Og til að virka sem sú litapalletta sem hún er svo oft nýtt í þarf þetta að vera alvöru konsertharpa í topp standi. Það að hafin verði kennsla á hörpu í TA tryggir að henni verður haldið vel við og reglulega spilað á hana. Alvöru konserthörpur eru tignarleg en um leið viðkvæm hljóðfæri. Að þurfa flytja hörpu frá Reykjavík í hvert sinn sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands vantar eina, er bæði kostnaðarsamt og getur farið illa með hljóðfærið. Þess vegna er þessi hörpugjöf gríðarlega mikilvæg fyrir tónlistarlífið á Akureyri,“ segir Þorvaldur Bjarni.

Mahaut Ingiríður Matharel hefur æft á hörpu í tólf ár, eða síðan hún var fimm ára. „Þetta er svo fallegt hljóðfæri og með fallegan hljóm. Því fylgir mikil stjórn að spila á hörpu því maður spilar með fingrunum en ekki með boga. Hörpum fylgir mikill persónuleiki og ég tala um þær eins og manneskjur. Ég hlakka alltaf til að hitta þær og sakna þeirra þeirra þegar ég fer frá þeim,“ segir Mahaut.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó