Unnur Ása Atladóttir er nýr sviðsstjóri starfsnáms við VMA. Við starfinu tók hún af Önnu Maríu Jónsdóttur sem hefur hafið störf sem verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Unna Ása hóf störf í apríl. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef VMA.
Árið 2019 fór Unnur í viðskiptafræðinám við Háskólann á Akureyri og áfram í meistaranám í kennslufræði við sama skóla. Námið stundaði Unnur í fjarnámi og starfaði til að byrja með eftir sem áður hjá blakdeild Þróttar. Seinna árið í meistaranáminu var hún umsjónarkennari í Nesskóla.
„Ég hafði ekki annað í huga en að halda áfram að kenna í Nesskóla en þá losnaði staða áfangastjóra við Verkmenntaskóla Austurlands og ég var ráðin í hana haustið 2021. Þetta var víðtækt starf sem tók við alls námsins í skólanum, jafnt starfsnáms, stúdentsprófsbrauta og fjarnáms. Í VA eru um 120 dagskólanemendur en einnig eru fjölmargir fjar- og dreifnemendur og nemendur í helgarlotum. Í það heila eru rúmlega 400 nemendur við skólann og yfir 500 þegar grunnskólinn er í vali á haustönn.
Starf áfangastjóra VA er fjölbreytt og skemmtilegt en þegar ég sá auglýst starf sviðsstjóra starfsnáms í VMA ákvað ég að sækja um. Mér fannst spennandi að takast á við nýja áskorun, starfa í stórum skóla og búa í stærra samfélagi á Akureyri, sem ég hafði fengið tækifæri til þess að kynnast þegar ég stundaði nám við HA. Ég er mjög spennt fyrir þessu starfi og mér hefur verið tekið afar vel af samstarfsfólki mínu. Þessa fyrstu daga hef ég verið að setja mig inn í starfið og kynnast ýmsum öngum þess. Og einnig að læra að rata um húsakynnin hér! Eitt og annað í námsumhverfinu þekki ég vel frá fyrra starfi mínu í Verkmenntaskóla Austurlands en vitaskuld er margt nýtt fyrir mér sem ég mun setja mig vel inn í. Það verður mjög gaman að vinna í því teymi sem heldur utan um námið hér,“ segir Unnur Ása í samtali á vef VMA þar sem fjallað er nánar um hana.
UMMÆLI