Inga Eiríksdóttir, kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga, og Halldór Ingvar Guðmundsson, meistaranemi við Háskólann á Akureyri og kennari við Grunnskóla Fjallabyggðar, hafa ferðast saman gegnum menntakerfið undanfarna tvo áratugi, hún sem kennari og hann sem nemandi. Fjallað er um þau á vef Menntaskólans á Tröllaskaga.
„Ferðasagan hófst í Grunnskóla Ólafsfjarðar þar sem Inga var umsjónarkennari bekkjarins hans Halldórs í þrjá vetur, í 8. – 10. bekk. Inga færði sig svo yfir í Menntaskólann á Tröllaskaga þegar hann var stofnaður árið 2010 og fljótlega kom Halldór þangað líka og Inga kenndi honum þó nokkra áfanga þar. Halldór útskrifaðist frá MTR og hóf síðan kennaranám við Háskólann á Akureyri. Hann er nú í meistaranámi sínu þar og viti menn, Inga og Birgitta Sigurðardóttir, samkennari hennar við MTR, hafa undanfarin ár kennt áfanga við HA sem kallast Upplýsingatækni í námi og kennslu og þar hittust þau Inga og Halldór enn á ný sem kennari og nemandi,“ segir á MTR.is.
Sem fyrr segir er Halldór kennari við Grunnskóla Fjallabyggðar meðfram meistaranámi sínu, og gaman er að segja frá því að um þessar mundir starfa 13 manns við GF sem lokið hafa stúdentsprófi frá MTR.
UMMÆLI