Framkvæmdir við kirkjutröppurnar eru hafnar að nýju eftir talsvert hlé og er búið að byggja yfir neðsta hluta trappanna, en þar er verið að vinna í húsnæði sem er undir tröppunum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar í dag.
„Að því loknu verður hægt að hefja vinnu við sjálfar kirkjutröppurnar, þeirri vinnu hefur seinkað m.a. sökum þess að erfiðlega gekk að fá verktaka í verkefnið og það var umfangsmeira en var ráð fyrir gert. Umhverfis- og mannvirkjaráð leggur áherslu á að um er að ræða mikilvæga framkvæmd sem verður sannkölluð bæjarprýði, mikilvægt er að vandað sé til verka og tekið sé tillit til ráðlegginga fagfólks, þrátt fyrir að það þýði tafir á verklokum fram til loka júlí,“ segir í tilkynningu bæjarins.
Einnig eru framkvæmdir hafnar við síðasta áfanga í Listagilinu (Kaupvangsgili). Það er verkefni sem hófst árið 2020 en áfanginn sem framundan er felst í endurgerð gangstéttarinnar frá Kaupvangstorgi (við verslunina Eymundsson) og upp að Ketilhúsi norðanmegin í gilinu. Stefnt er að því að ljúka þessum síðasta verkþætti fyrir 17. júní næstkomandi.
UMMÆLI